Heimasíða Finns og Hrefnu - 2000
Þriðji í jólum
27. des (FBÞ) - [Sett á vefinn þann 27. des]
Og þá er kominn þriðji í jólum... Ekki það að dagurinn sé sérstaklega hátíðlegur nema kannski fyrir þær sakir að við ákváðum í dag að gefast upp á letillífinu í bili og keyra aðeins um svæðið í leit að einhverju athyglisverðu...
Síðustu dagar hafa nefnilega farið í tölvuleikinn Monkey Island 4: Escape From Monkey Island frá Lucasarts sem ég fékk (ásamt fleiru) í jólagjöf frá Hrefnu. Monkey Island er stórskemmtileg sería sem við Hrefna höfum yfirleitt setið saman yfir og skemmt okkur konunglega við að leysa þrautirnar...
"Not in this lifetime, Guybrush Threepwood!"
En í dag var hins vegar komið að bílferð til Santa Cruz sem er borg við ströndina sem er í um klukkutíma fjarlægð héðan. Við vorum ákveðin í að villast ekki í þetta skiptið!
Leiðin til Santa Cruz er hlykkjótt og skógi vaxin
Þegar við komum til Santa Cruz keyrðum við í stutta stund um bæinn og skoðuðum húsin og mannlífið. Áður en langt um leið fundum við lítinn þjóðgarð (?) sem heitir Natural Bridges State Park en það er pínulítill skógur í nágrenni við ströndina. Við kíktum að sjálfsögðu þar inn án þess að vita nokkuð hvað þar væri að finna.
Undarleg tré í þessum skógi...
Fleiri undarleg tré...
Við komumst að því að Natural Bridges State Park er dvalarstaður risastórra Monarch smjörflugna (e. butterfly) en fiðrildin (smjörflugurnar) safnast saman á þessum stað á haustin þegar of kalt er annars staðar í Ameríku. Þar verpa þau eggjum sem verða að lirfum sem verða að púpum sem verða að nýjum fiðrildum.
"Hvíldarstaður" Monarch fiðrilda
Ussss, ekki hafa hátt!!!
Fiðrildin þurfa víst ákveðið hitastig til að geta flogið og þegar hlýnar í veðri dreifast þau um heimsálfuna og safnast aftur saman við strönd Kaliforníu þegar fer að kólna. Magnið af fiðrildum þarna var ótrúlegt, sum laufblöð trjánna voru þakin fiðrildum sem (með útbreidda vængi) voru á breidd við mannslófa.
Monarch fiðrildi í einu trénu
Monarch fiðrildi örlítið nær
Nærmynd af einu fiðrildinu
Svo virðist sem Monarch fiðrildin séu einu fiðrildin sem er að finna í þessum skógi, allavega rákumst við ekki á neina aðra tegund innan um þúsundir Monarch fiðrilda.
Í þjóðgarðinum var einnig undarlegur grænn pollur
Öðru hvoru heyrðist í froski kvaka í nágrenninu
Þegar hrært var í læknum kom í ljós að vatnið var glært en
ofan á því flutu græn fræ í milljóna tali sem létu svo líta út
sem vatnið væri grænt og ógeðslegt...
Þjóðgarðurinn var eins og áður sagði við strönd Kyrrahafsins og þegar við vorum búin að skoða fiðrildin og skóginn (og kíkja í safnið og horfa á náttúrulífsmyndir um fiðrildin) þá kíktum við á ströndina.
Og við sem héldum að hin íslenska Dyrhólaey væri einstök í sinni röð, ónei!
Uppi á eynni var svo fullt af pelíkönum!
Strönd Kyrrahafsins í Santa Cruz, séð í hina áttina
Eftir þetta kíktum við inn í Santa Cruz aftur og ákváðum að keyra upp að University of California í Santa Cruz sem á víst að vera nokkuð virtur skóli, staðsettur í hæðunum fyrir utan Santa Cruz. Hann virðist hins vegar vera mjög dreifður um stórt skógi vaxið svæði og við vorum aldrei viss um hvort við værum búin að finna skólann eða ekki (fundum bara eina og eina byggingu) þannig að við keyrðum þarna í nokkra hringi og ákváðum síðan að fara aftur til baka þar sem við vorum að verða bensínlaus.
Það fór að sjálfsögðu ekki svo að við myndum ekki villast því að við keyrðum í örugglega 20-30 mínútur um þrönga og hlykkjótta fjallvegi með hjartað í buxunum yfir því að verða bensínlaus einhvers staðar á leiðinni en fundum loksins þjóðveg sem lá inn í bæinn aftur og gátum náð okkur í meira bensín. Hjúkk!! :)
Að því loknu löbbuðum við niður verslunargötu í Santa Cruz og kíktum inn í nokkrar verslanir án þess að kaupa neitt nema nokkrar ljúffengar California Pacific Cookies (Mmmmmm!). Við vorum að hugsa um að borða á írskum veitingastað í nágrenninu en klukkan var ekki orðin það margt - þannig að við ákváðum að keyra frekar til baka, heim til Palo Alto.
Þegar þangað var komið stoppuðum við á kínverskum take-away stað og nú er bara að snúa sér aftur að Monkey Island!! :)
|