Gísli og Bobby
Sunnudagur 22. apríl (FBÞ) - [Sett á vefinn mánudaginn 30. apríl]
Við vorum orðin nokkuð sólbrennd (eftir alla útivistina á jarðardeginum) þegar við lögðum af stað til Gísla og Bobby, sem búa í Milpitas/San Jose. Ég kynntist Gísla í gegnum sameiginlegan vin okkar, Björn Þór, þegar ég fór að leita að atvinnu hér. Björn benti mér á Gísla sem er Íslendingur, sem býr hér með bandarískri konu. Þau komu hingað á svipuðum tíma og við, þau fluttu frá austurströndinni og er hann að vinna hjá gagnagrunns-fyrirtæki sem heitir RightOrder og er hér Sílikondalnum. Hún er í námi en spilar með hinum ýmsu hljómsveitum í frístundum sínum.
Við höfðum aldrei séð þau áður og vissum nákvæmlega ekki neitt um þau þegar við mættum. Björn hafði ekki sagt mér neitt um þau þannig að við vissum ekki einu sinni hvað þau væru gömul eða hvernig þau litu út. Ég hafði einu sinni (mögulega tvisvar) talað við Gísla í gegnum símann en það er mjög blekkjandi að reyna að gera sér mynd af fólki með ekkert annað en röddina sér til hjálpar.
Þegar þangað var komið var tekið á móti okkur með virktum, þau búa í fjölbýlishúsi sem er með líkamsræktaraðstöðu, gufubaði, sundlaug og heitum pottum. Við byrjuðum á heitum potti og spjölluðum heillengi saman, hún er að fara ein til Íslands í um mánuð í sumar og ætlar að búa hjá fjölskyldu Gísla. Þau sögðu að þau hefðu verið að leita að kennara til að kenna henni íslensku en ekki enn fundið hér (einhverjar hugmyndir einhver??) - þessi heimsókn til Íslands er m.a. hugsuð sem námsferð fyrir hana. Hún er búin að læra eitthvað af orðum og frösum á íslensku en treystir sér ekki til að reyna að tala mikla íslensku, þannig að enskan varð fyrir valinu þetta kvöldið.
Gísli og Bobby
Gísli sagði mér frá því að það hefði verið eins gott að ég hefði ekki farið að vinna fyrir þá því að þeir sögðu upp um 40% af starfsfólki sínu um daginn og þar sem ég hefði verið nýbyrjaður þá hefði ég verið sá fyrsti sem hefði fengið að fjúka... Hann getur reyndar vel við unað því að þeir breyttu um viðskiptaáætlun í kjölfarið og fóru að snúa sér meira að því sem hann hefur mestan áhuga á.
Gísli sá um eldamennskuna, eldaði afar ljúffengan Apríkósu-kjúkling upp úr uppskriftabók Hagkaups ásamt kartöflumús og fersku salati. Afar góður matur.
Svo eiga þau líka tvo ketti sem eru mjög smeykir við gesti
og þora yfirleitt ekki að koma undan rúminu þegar
gestir eru í heimsókn. Við virtumst því hafa fengið sérstakar móttökur.
Kettirnir voru mjög sprækir og virtust verða ófeimnari
með hverri mínútunni sem leið.
Og eftir ánægjulegar samvistir, þegar líða tók að miðnætti, fórum við Hrefna að hugsa okkur til hreyfings - enda erfiður mánudagur fyrir höndum hjá Hrefnu í skólanum. Dagurinn líka búinn að vera viðburðarríkur með eindæmum, grillmatur í hádeginu og útsýnisferð upp í Hoover tower á eftir og síðan matarboð hjá Gísla og Bobby um kvöldið.
Við komum svo heim einhvern tímann eftir miðnætti og vildi svo skemmtilega til að í pósthólfinu
beið tilboð um atvinnu frá einu fyrirtækinu sem Finnur hafði talað við fyrst.
|