U2 tónleikar
Föstudagur 20. apríl (FBÞ) - [Sett á vefinn þriðjudaginn 24. apríl]
Á föstudeginum kíktum við með Kerri og Todd til San Jose (um 40 mín. akstur) til að fara á U2 tónleika í San Jose Arena (sem heitir víst Compac Center um þessar mundir).
San Jose Arena, risastórt fyrirbæri
Við biðum í löngum röðum (sem gengu þó tiltölulega fljótt fyrir sig) framhjá
röðum af básum sem útvarpsstöðvarnar höfðu sett upp til að auglýsa senditíðni sína.
Og á nokkrum vel völdum stöðum voru undarlegir menn með skilti...
... þar stóðu nefnilega meðlimir sértrúarhópa með gjallarhorn í annarri
og biblíu í hinni - boðuðu guðs orð og fordæmdu "skírlífsbrot, hjáguðadýrkendur,
lygara, fyllirafta, homma, hórdóm, þjófa og guðhatara" svo að nákvæmlega sé eftir
þeim haft. Sennilega sértrúarhópar af svipuðum toga og gáfu út ritið
"Rokkið - tónlist djöfulsins" á íslensku.
Gott að vita að umburðarlyndið er ríkjandi afl í þessum trúarbrögðum eins og svo mörgum öðrum... :)
En við renndum sem sagt hratt yfir listann í huganum, afneituðum öllum syndum fyrirfram og gengum síðan hröðum skrefum inn í musteri hjáguðadýrkendanna.
Við áttum sæti efst uppi í rjáfri, nánast beint á móti sviðinu.
Svona var umhorfs frá okkur séð meðan fólk týndist inn, sviðið
var hjartalaga og fékk hluti áhorfendanna að vera innan í hringnum á gólfinu
Aðeins víðara sjónarhorn, horft yfir salinn
Fyrir framan okkur voru nokkrar bandarískar stelpur, ein af þeim í
Mysterious Ways búningi með öllu tilheyrandi. (Þessi mynd er tekin alveg
í byrjun - áður en þær byrjuðu að dansa!)
Fjórir stórir sjónvarpsskjáir voru fyrir ofan sviðið (einn fyrir hvern hljómsveitarmeðlim)
og öðru hvoru komu upp úr gólfinu sjónvarpsskjáir fyrir aftan sviðið líka, sem risu og sigu svo
niður aftur - allt eftir þörfum. Hér er verið að flytja "...she moves in mysterious ways!"
Mikið ljósadýrð var á meðan tónleikunum stóð, ljóskastarar og ljóskeilur
og alls konar ljósform mynduð með alls konar brögðum...
En klukkan tæplega 11 var þessu öllu lokið og við héldum heim glöð í bragði.
Og hvernig voru svo tónleikarnir? Þeir voru stórgóðir, U2 stóðu fyllilega fyrir sínu og skemmtu gestum
konunglega í um 2 tíma. Mikið var spilað af þekktum gömlum U2 lögum en einnig svolítið af nýju plötunni, All That You Can't Leave Behind...
Þannig að við skemmtum okkur mjög vel, öll fjögur.
Og svo í lokin örlítið víðara sjónarhorn sem sýnir enn frekar hvað þetta var stórt...
San Jose Arena - frá handriði til Kerriar! :)
|