Heimasíða Finns og Hrefnu - 2001b | Forsíða |
The Big Dish
Miðvikudagur 1. ágúst (HMG) - [Sett á vefinn mánudaginn 6. ágúst]
Yfirmaðurinn minn, hann Ivan Linscott, er mikið að vinna með "The Big Dish". The Big Dish er útvarpssjónauki sem er 46 metrar í þvermál og á heima í hálftíma göngufjarlægð frá rafmagnsverkfræðibyggingunni sem ég vinn í. Þennan miðvikudag mætti ég extra-seint (um 11) því við höfðum sofið yfir okkur í þökk hafnarboltans og í ofanálag hafði ég keyrt Finn í vinnuna því planið var að fara í Ikea seinna um daginn að ná í sófaborðið okkar langþráða. Hvað um það, þegar ég loksins mætti þá tjáði Linscott mér að hann væri á leiðinni upp í disk og hvort ég vildi ekki koma með. Maður lætur nú ekki bjóða sér svoleiðis tvisvar þannig að skömmu síðar lögðum við af stað fótgangandi. Það er hægt að keyra þangað líka en það tekur næstum jafnlangan tíma og að fara þetta á tveimur jafnfljótum!
Diskurinn gnæfir yfir Stanford af svokölluðum "Foothills" sem
eru við fætur fjallgarðsins sem skilur Sílikondalinn frá Kyrrahafinu.
Hér erum við komin aðeins nær. Takið eftir bílunum
tveimur sem er lagt við diskinn. Þar voru víst á ferðinni menn
frá rannsóknarstöð sjóhersins...
Komin inn í húsið sem er milli lappanna á disknum og hreyfist með honum!
Ivan Linscott til vinstri og Graham (eða Greg?) við stjórnborðið.
Stjórnborðið. Með því má færa diskinn 360° "lárétt" og næstum 90° "lóðrétt".
Þess má geta að það notar windows stýrikerfi ;) Reyndar er ágætur
samansafnaður af tölvum sem og stýrikerfum þarna inni... það er einn hundgamall
makki, ein Win 3.1, ein Win 3.11, ein Sun vél og svo þar fram eftir götunum...!!
Eftir að hafa prufukeyrt kerfið með því að horfa á þekktar útvarpsbylgju-uppsprettur
í geimnum, þá komst Linscott að þeirri niðurstöðu að það vantaði eitthvað upp á að
kerfið væri í toppstandi og ákvað að taka niður "feed"-ið. "Feed"-ið er á endanum
á þrífótunum sem stendur út úr disknum og tekur á móti merkjum utan úr geimi
sem endurvarpast af disknum. Það tekur 7 mínútur að hala það niður...
... og hér er þrífóturinn við það að snerta jörðina.
Þetta svarta sem stendur út úr "hausnum" er "hornið" sem tekur á móti merkjunum.
Þegar kíkt er á merki af öðrum tíðnisviðum þá er skipt um þetta horn
og annað svipað í laginu en stærra/minna sett í staðinn.
Hér er Linscott á kafi í "hausnum" að herða allar tengingar.
Þarna inni er líka vinda sem hreyfir "hornið" upp og niður.
Hér er hornið. Stundum kemur fyrir að fuglar gera sér
hreiður þarna inni!
Hér er svo "Húsið undir disknum" (svona eins og "Húsið á sléttunni").
Áður er myndavélin gafst upp vegna batterísskorts þá klifraði ég aðeins
upp stigann og tók mynd niður á jörðina... þarna er ég ekki einu sinni
komin alla leiðina upp! Grindin er úr stáli en yfirborðið er vírnet úr áli.
Ætli ég reyni ekki að taka betri útsýnismyndir einhvern tímann seinna, það sést stundum alla leiðina til San Francisco - ef það er ekki of mikil þoka þar. ;)
En sem sagt ... þetta er "The Big Dish" (helst sagt með sound effects og öllu)!!
Síðar um daginn fór ég sem sagt í Ikea og keypti hið langþráða sófaborð sem tekur sig bara ágætlega út í stofunni. Alltaf gott að fara í Ikea - það minnir mann svo á heimahagana! :)
|