Elsa fæðir
Laugardagur 20. apríl 2002 (HMG) - [Sett á vefinn laugardaginn 20. apríl]
Í kvöld eignuðust Elsa og Þráinn myndarlegan dreng, sannkallaðan eldibrand!
Elsa og Þráinn með nýfæddan soninn.
Þetta hófst allt með því að okkur Finni datt í hug að það gæti nú verið gaman að kíkja á Elsu og Þráinn áður en Elsa myndi eiga (hún var sett á þriðjudaginn næsta) og eftir að hafa hringt í þau var okkur boðið í grill heima hjá þeim. Við mættum um sexleytið og þá voru Guðrún og Snorri að fara heim til sín með Sif dóttur sína og Kristborgu dóttur Elsu og Þráins, sem átti að gista heima hjá þeim.
Við settum kjötflykki á grillið og röbbuðum saman um daginn og veginn á meðan við biðum eftir að kjötið yrði tilbúið. Um klukkan 19:45 heyrist í Elsu að hún sé nú með smá verki, en ekkert mikla samt. Tímasetningarnar á eftirfarandi myndum eru fengnar frá stafrænu myndavélinni okkar.
Klukkan 19:50 - Þráinn og Elsa kasólétt.
Klukkan 19:58 - Þráinn brýnir kjöthnífinn.
Áður en varði var maturinn tilbúinn og við settumst við borðið.
Klukkan 20:06 - Finnur og Elsa við matarborðið.
Nokkrum mínútum síðar fær Elsa hríðir fyrir alvöru og fer frá borðinu og upp í rúm og
tekur á sér tímann. Það eru 2-3 mínútur á milli hríða. Þráinn hringir upp á spítala og
segist vera að koma með Elsu. Þau fara að taka sig til og við göngum frá matnum á meðan.
Klukkan 20:37 - Þráinn og Elsa komin út úr dyrunum og á leiðinni út í bíl.
Eftir smá snúninga inn og út úr íbúðinni að ná í teppi og farsíma og svoleiðis
missir Elsa vatnið á bílastæðinu. Skömmu síðar tilkynnir hún að hún sé farin að
rembast og Þráinn hringir strax á sjúkrabíl. Sem betur fer er slökkviliðsstöðin
svo gott sem í næsta húsi því þegar löggan og slökkviliðið mætir þá er
kollurinn kominn út!!! Sjúkrabíllinn kom mínútu síðar.
Elsa er látin leggjast á götuna á milli tveggja bíla á bílastæðinu á meðan Þráinn
heldur undir bakið og höfuðið á henni og tveir slökkviliðsmenn taka á móti.
Ég var fengin til að halda á vasaljósi til að lýsa þeim og sá með eigin augum
litla drenginn skjótast út á augabragði! Hann var ofurfallegur, reyndar afar hvítur,
en eftir að slökkviliðsmennirnir sugu slímið úr munninum á honum og potuðu aðeins
í hann hrökk hann í gang og gaf frá sér öskur. Öllum viðstöddum létti stórlega! :)
Síðan var litla drengnum vafið inn í fullt af teppum til að ná í hann smá hita (það var
svona 10 stiga hiti úti) og hann tók strax að fá lit í kinnarnar og var orðinn vel bleikur
undir lokin. Eftir að búið var að klippa á naflastenginn var Elsu lyft upp af götunni, hún sett
á sjúkrabörur og henni skutlað inn í sjúkrabíl þar sem hún fékk að halda á nýja syninum.
Mig minnir að einhver hafi sagt að hann hafi fæðst klukkan 20:52.
Klukkan 20:57 - Elsa komin inn í sjúkrabílinn og búin að fá drenginn í hendurnar.
Klukkan 20:57 - Þráinn skælbrosandi í framsætinu á sjúkrabílnum
Klukkan 20:58 - Elsa og sonur
Klukkan 20:58 - Þráinn spennir beltið enda sjúkrabíllinn að leggja af stað!
Klukkan 20:59 - Síðasta myndin áður en hurðinni var lokað og lagt í hann.
Klukkan 20:59 - Sjúkrabíllinn frá Palo Alto stöðinni
Klukkan 21:01 - Einn slökkviliðsmaðurinn varð eftir til að
taka til eftir fæðinguna. Hér er hann með Finni.
Klukkan 21:03 - Slökkviliðsbílinn.
Klukkan 21:04 - Hér sést slökkviliðsmaðurinn spreyja hreinsilegi
á slóðina sem Elsa skildi eftir sig. Ég var ekkert að grínast þegar
ég sagði að hún hefði átt barnið á milli tveggja bíla á bílastæðinu!!! :)
Annar bílaeigandinn færði bílinn á endanum og nú er búið að spúla
stæðið vel og vandlega.
Eftir stóðum við Finnur og vissum varla í hvorn fótinn við áttum að stíga!!
Við tókum því til við að klára uppvaskið eftir matinn og hringdum í Guðrúnu og Snorra.
Síðan fundum við til það sem Þráinn og Elsa höfðu ætlað að taka með sér en ekki haft tíma til
(myndavél, náttkjól, lykla, bíl...) og keyrðum á Stanford spítalann, en þangað
sagði vingjanlegi slökkviliðsmaðurinn að þeim hefði verið ekið.
Klukkan 21:51 - Hrefna við innganginn á Stanford Emergency.
Eftir að hafa ráfað um ganga slysó, fundum við loksins
"Labor and Delivery" deildina en þar kannaðist ekki neinn við neitt.
Klukkan 21:56 - Svona lítur Stanford spítali út að innan... :)
Klukkan 22:04 - Labor and Delivery deildin. Þegar í ljós kom að Elsa var hvergi
á spítalnum datt okkur í hug að hún gæti verið á Kaiser spítlanum (þar sem hún er tryggð)
og því var hringt þangað. Það var ekki búið að stafa nema fjóra stafi af eftirnafninu þegar
við vorum búin að finna hana! :) Nú var bara að finna spítalann sem var einhvers staðar
í Redwood City, í um 20 mínútna akstursfjarlægð... :)
Klukkan 23:09 - Eftir að hafa villst alveg stórkostlega á leiðinni á
spítalann þá fundum við hann að lokum. Hér er Finnur með
"fæðingartöskuna".
Klukkan 23:13 - Við fundum loksins hina nýbökuðu foreldra!
Hér erum við með Þráni og litla manninum.
Klukkan 23:16 - Litla krúttið var sett á skoðunarborð því
nú skyldi pota í hann með nálum. Það mun vera hætta á að
blóðsykurinn fari úr skorðum þegar börn fæðast úti við og þess
vegna var verið að pota extra mikið í litla greyið.
Klukkan 23:16 - Það var sett á augun á honum bakteríudrepandi krem
sem útskýrir líklega af hverju hann er svolítið boxaralegur... :)
Klukkan 23:16 - Algjör dúlla! :)
Klukkan 23:18 - En svo var friðurinn úti og kominn tími á að taka blóðsýni.
Þetta hlýtur að vera erfitt starf... sama hvað maður þarf að gera... alltaf fylgja því öskur!
Klukkan 23:28 - Elsa komin í rúmið þar sem hún sefur í nótt.
Þráinn þarf hins vegar að fara heim í kvöld en þau mægin fara heim
á morgun. Þá er meiningin að við Finnur komum í heimsókn
og fáum ísinn sem við náðum aldrei að borða í eftirrétt!! :)
Hér fylgja síðan myndir af Elsu og Þráni ásamt nýja syninum.
Klukkan 23:31 - Þessi fer upp á vegg! :)
Klukkan 23:31 - Þráinn hugar að litla manninum
Klukkan 23:31 - Nú er komið að mömmu að veita drengnum athygli.
Klukkan 23:32 - Til hamingju með nýja drenginn
Elsa, Þráinn og Kristborg!! :)
|