Húsgagnahringl
Við vorum öll á efri hæðinni þegar mikið brothljóð heyrðist af neðri hæðinni í morgun. Þar hafði ramminn með brúðkaupsmyndinni okkar tekið að sér að liðast í sundur og smallast á gólfinu. Þetta fær maður víst fyrir að kaupa el-cheapo ramma í WalMart þegar við komum til Bandaríkjanna fyrir rúmum átta árum. Við ætlum svo rétt að vona að þetta hafi ekki verið eitthvað yfirnáttúrulegt merki um hjónabandsvoða, það væri slæmt!
Hvort það var löngun í nýjan ramma, eða eitthvað annað, þá vaknaði gríðarleg Ikea-þörf og fyrr en varði var ég farin að hillu-plana. Baksagan er sú að Bjarki er orðinn nógu stór til að hætta að setja allt upp í sig. Það varð því úr að fullt af dóti frá Önnu var flutt niður (litlu legó-kubbarnir, trélestarteinar), ásamt hillunni sem það bjó í. Anna fékk á móti hærri hillu af neðri hæðinni sem passar við hin “Robin” húsgögnin hennar og þýðir að hún getur falið aðeins meira dót fyrir Bjarka, sem er búinn að læra að opna allar hurðir í húsinu.
Þar með var leik-gólfplássið á neðri hæðinni endanlega sprungið, og ekki hjá því komist að bæta við hillurýmið. Æjæj, þurfum við þá að fara í Ikea? Æj, greyið ég og Anna… 🙂 Niðurstaðan varð sú að við keyptum aðra eins hillu og Anna var með, svo og eina háa hillu undir allar bækurnar. Hillurnar smellpössuðu allar í stofuna, og ég er ekkert smá ánægð með niðurstöðuna. Ekki nóg með að nú sé hægt að ganga almennilega frá dótinu niðri, heldur er líka búið að losa horn í borðstofunni svo nýja borðið ætti að komast betur fyrir.
Í lok dags hringdu svo Todd og Torie og buðust til að koma með pizzadeig og elda með okkur. Við slógum að sjálfsögðu til og áttum góða kvöldstund með þeim. Alltaf gott að eiga góða vini að! 🙂
P.s. Var að setja fjórar “nýjar” myndasíður inn, frá ágúst í fyrra. Sjá:
22.08.08 Santa Cruz
21.08.08 Exploratorium
20.08.08 Oakland Zoo
14.08.08 Snorri, Tina