Heimasíða Finns og Hrefnu - 2000
Verslanir
Við höfum kynnst nokkrum matvöruverslunum og stórmörkuðum þessa þrjá daga sem við höfum verið hérna. Fyrir utan Fry's Electronics sem selur raftæki er til dæmis Safeway (matvörubúð sem helst má líkja við Hagkaup) sem og Target, Wal Mart, K-Mart (búðin sem Dustin Hoffman gerði ódauðlega í Rain Man) og CostCo (allt stórmarkaðir sem selja yfirleitt föt, raftæki, búsáhöld og/eða matvörur). CostCo er mjög sérstök búð en hún er eins konar Bónusverslun þar sem eingöngu er hægt að kaupa inn vörur í miklu magni. Til dæmis er ekki hægt að kaupa minna en 48 stk. af Snickers þegar Snickers-þörfin kemur yfir mann :). Verðið er að sjálfsögðu í samræmi við það, hver innkaupakarfa dýr þar sem einingarnar eru stórar en þegar reikningsdæmið er skoðað nánar kemur þetta vel út per stykki.
Safeway virðist vera ein besta matvörubúðin á svæðinu, risastór og hægt að fá allt sem hugurinn girnist. Nóg til af öllu, grænmetið ferskt og gott og mikið úrval. Við Hrefna vorum stödd í grænmetisganginum þegar allt í einu heyrðust þrumur úr hátalarakerfinu fyrir ofan grænmetið og blá blikkljós fóru í gang. Við horfðum undrandi hvort á annað þangað til að úðunarkerfi fór í gang og fór að úða yfir grænmetið! Væntanlega til að halda öllu fersku en það var frekar skoplegt að sjá að þeir úða líka yfir icebergið sem var innpakkað í plast (eins og heima). Rómverjar eru klikk! :)
Í sumum verslunum þarf að passa vel upp á kerruna því ef hún er skilin eftir í svolítinn tíma á maður á hættu að einhver starfsmaður taki kerruna og fari að raða upp úr kerrunni í hillurnar aftur! Eins gott að fara ekki langt frá kerrunni þegar maður er í Safeways eða Wal Mart. :)
Kjötborðið er skondið hér, mikið af nautakjöti, kjúklingi og nokkuð um svínakjöt. Hrossakjöt finnst ekki í kjötborðinu enda aðeins villimannaþjóðir á borð við Íslendinga sem borða hrossakjöt, eins og Berglind orðaði það. Einnig er tilfinnanlegur skortur á lambakjöti en við vitum ekki alveg hvers vegna. Hægt er að fá risastórar T-bone nautasteikur sem passa ekki einu sinni á pönnuna okkar alveg niður í hakk, svipað og heima.
Annars höfum við bara tvisvar farið að versla og erum enn að læra á þetta allt saman.
|