Heimasíða Finns og Hrefnu - 2000
Gamlársdagur
31. des (HMG) - [Sett á vefinn þann 4. jan]
Loksins var kominn gamlársdagur og öldin og árþúsundið formlega á enda! Af því tilefni héldum við Finnur út á strönd fræga fólksins, nánar tiltekið Malibu Beach sem er í 30 mínútna fjarlægð frá Encino. Okkur til mikillar undrunar komumst við að því að Malibu nær yfir mikið landssvæði og inniheldur margar strendur. Einnig var athyglisvert að fræga fólkið býr þar sem maður sér ekki í það! (Gat nú verið! Þetta fræga fólk!! Algjört pakk!! ;)
Eftir að hafa keyrt Malibu á enda snérum við við og stoppuðum til málamynda á Broad Beach (að mig minnir) og nutum sjárvargolunnar.
Finnur stóð á ströndu og var að telja strý...
Merkilegt nokk þá virðast kanarnir vera mikið fyrir að keyra á stöndunum,
eða kannski eru þetta för eftir ruslakallana? Eða strandverðina?
Í fjarska sjást svo þessar týpísku hæðir og mengunin... ekki gleyma henni!
Sjórinn stóð fyrir sínu
En hvar er Pamela?
Eins og sannri strönd sæmir var þar líka að finna lífvarðarturn!
Hvað ætli "Pansy Truck" sé eiginlega (sjá skilti)?!?!
Austarlega á Malíbu sáum við þetta stórkostlega hús efst á hæðinni og
nokkur álíka furðuleg í byggingu við hliðina á því.
Sjá nærmynd hér að neðan.
ÓH MÆ GOD!!! Ætli arkitektinn sé mikill siglingakappi?!?!
Óli byggingatæknifræðingur!! Þekkir þú þetta?!? :)
Í hæðunum var slatti af minniháttar köstulum og stórum húsum og a.m.k. eitt hverfi var með rammgerð hlið og öryggisverði. Gunnhildur tjáði okkur hins vegar að stjörnurnar búi yfirleitt við sjóinn, neðan við þjóðveg 1 sem liggur þarna í gegn, en er svo umkringt skógi og klettum að það sést ekki í húsin þeirra.
Við héldum svo aftur til Encino enda klukkan að verða 16:00 og næstum komið nýtt ár á Íslandi. Eins og tilheyrir spjölluðum við við fólkið heima á klakanum og öllum var óskað gleðilegs nýs árs þrátt fyrir að það væri skjannabjart hjá okkur og ekki beinlínis gamlársdagslegt!! Klukkan 18:00 var kvöldmaturinn tilbúinn, hunangsreykt svínakjöt með meðlæti og allir fullorðnir átu yfir sig! Því miður var Helena litla orðin veik, eitthvað hafði hún ofkælst daginn áður og var komin með hita og lá í rúminu það sem eftir lifði heimsóknarinnar. Orri var með hálsbólgu og gekk erfiðlega að borða kjötið... alltaf er það eitthvað! :)
Jón stendur yfir svíninu með hníf í hendi. Helena litla var ekki líkleg
til stórræðanna en Orri gerði sitt besta til að halda borðhaldinu líflegu!
(náði sér í gulrætur og fór að búa til gulrótarhringi :)
Það sem eftir lifði kvölds sat fólk sem lamað í stofunni eftir allsherjar ofát og spjallaði saman og glápti á imbann. Var ýmist horft á aðdraganda þess að kristalskúlan á Times Square torgi í New York félli eða hina ýmsu nýársfagnaði sem hinar stöðvarnar buðu upp á. Það skal viðurkennast að það var svolítið skrýtið að halda upp á áramót svona langt á eftir öllum hinum í heiminum (þetta frá New York var sko ekki beinlínis "live") en þegar klukkan sló tólf var skálað í risastórri flösku af freyðivíni eins og vera ber. Eftir miðnætti horfðum við á "2001: A Space Odyssey" þar til fólk tók að týnast í rúmið enda um furðulega mynd að ræða og langt liðið á nóttina. Finnur hélt lengst út en náði samt ekki að klára hana! Kannski síðar á árinu :)
Brýnt hafði verið fyrir fólki að skjóta ekki af byssum upp í loftið um áramótin þar sem kúlan kemur víst niður til jarðar með sama hraða og hún fer upp. En það sem er kannski öllu sorglegra er að bannað er að skjóta upp flugeldum, sem er reyndar vel skiljanlegt þar sem nóg er af skógareldum á svæðinu þessa dagana þó að ekki sé bætt á það. Það kom þó ekki í veg fyrir að við söknuðum þeirra svolítið. Svo söknuðum við líka fjölskyldunnar og partý-anna og skaupsins og "þynnku"-annálanna daginn eftir (sem við fáum vonandi við að sjá á bandi seinna). :)
Þess má geta að fyrir utan kampavínið og hátíðarmatinn er hefð fyrir áramótapartý-um í Bandaríkjunum líkt og heima þrátt fyrir að við höfum ekki nýtt okkur það enda þekkjum við enga aðra í Los Angeles en Gunnhildi og Jón og fjölskyldu. :)
Á heildina litið voru þetta þó ánægjuleg og kannski fyrst og fremst róleg áramót, rólegustu áramót í áratugi hjá okkur báðum.
Anna, móðir Finns fletti upp Elephant Seals (sjá þar síðustu vefsíðu) í orðabók og komst að því að þeir heita sæfílar á íslensku og eru stórvaxin selategund sem finna má á tveimur stöðum í heiminum, skerjasæfíllinn við strendur Kaliforníu og kóngasæfíllinn við Suðurskautslandið. Þar hafið þið það!
|