Menning!
Ég er ekki alveg viss hvað varð um vikuna sem leið. Púff og farin bara! Það gerðist fátt merkilegt nema að í gærkvöldi dró ég Katie, mömmu Lulu, með mér allt leið til Berkeley til að sjá leikrit sem heitir “Devil’s Disciple” og er eftir George Bernard Shaw. Leikritið var hið fínasta, leikararnir stóðu sig vel flestir með prýði og við héldum glaðar heim eftir vel heppnað ævintýri og ákváðum að endurtaka leikinn fyrr en síðar.
Þetta var annars fyrsta leikhúsferð mín síðan apríl 2002. Mig hafði ekkert sérstaklega langað í leikhús aftur eftir þá sýningu (heldur niðurdrepandi) en þegar ég var að undirbúa vörnina (eða öllu heldur, drepa tímann fram að vörninni því ég kom engu í verk) þá fór ég að sakna “artí” fólksins. Það hefur alltaf pirrað mig örlítið að það eru allir voðalega “eins” í skólanum – allir þó nokkuð metnaðarfullir og duglegir og “góðir” og heldur “blah”. Ekki að þetta sé ekki fínasta fólk, bara ekki líklegt til að gang um með skærbleika loðdúska á hausnum.
Þannig að leikhúsið skaust upp í kollinum á mér, og jibbíjei, mér tókst að fara! Það var samt svoldið annarlegt að 80% af áhorfendunum (þetta var lítill salur) voru eldri borgarar með grátt hár. Ég sagði við Katie að þetta væri svolítið eins og að vera í kirkju, en hún svarði á móti að þetta væri kirkja að hennar skapi og því gat ég ekki neitað. 🙂 Ætli þetta sé svona mid-læf-kræsis hjá mér? Hmmm… sjáum til!