Gúrkutíð
Í dag er liðið eitt ár frá því að Bjarki kom heim af spítalanum. Þá má segja að tíminn hafi flogið frá síðan þá, og er það vel. Ef ég hefði verið skipulögð hefði ég tekið af honum mynd Í DAG, en það verður að bíða fram á morgun.
Annars er gúrkutíð hjá okkur núna. Ekkert að frétta nema að horið þeirra Önnu og Bjarka var heldur grænleitt í dag eftir nokkra gegnsæja daga og að hóstinn hennar Önnu er að batna en að hóstinn hans Bjarka er að sama skapi þá rétt að byrja. Jú, það kom kona í morgun til að athuga hvernig Bjarka fer fram og henni leist bara vel á held ég. Hún spáði því að hann eigi ennþá tvo mánuði í að fara að ganga, en hann er greinilega allur að koma til í þeirri deild því að hann fetaði sig hringinn í kringum stofuborðið í þeirri von að koma höndum yfir minnisbókina og pennann hennar.
Annars er ég að sjúgast inn í kosningafréttirnar hérna í Bandaríkjunum. Spennan að magnast og erfitt að halda sig frá því. Er farin að heimasækja vefsíður sem ég hef ekki kíkt á síðan þing-kosningarnar voru haldnar árið 2006. Á morgun eiga varaforsetaefnin að talast við í sjónvarpi og aldrei þessu vant vona ég innilega að kvenframbrjóðandinn endi með egg í andlitinu. Hún er samt kræf, og því er aldrei að vita hvað gerist.
Þess fyrir utan erum við með annað augað á íslenskum fjármálamarkaði (þar á meðan Davíð vs. Jón Ásgeir, hér á ensku). Ég var svolítið hissa þegar ég sá hvað krónan var orðin lág á móti dollaranum í morgun, en minnist þess samt enn að dollarinn var í 100-110 krónunum fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Ef að maður vissi hvaða banki væri áreiðanlegur, þá myndi maður kannski íhuga að senda nokkra dollara yfir á skerið…! 😉