Allt tilbúið fyrir gestina
Nú er klukkan rúmlega ellefu að kvöldi til og Finnur er nýlagður af stað upp á flugvöll til að taka á móti Öddu, Halla og Hildi Sif sem ætla að dvelja hjá okkur í rúma viku. Við erum búin að taka til, búin að þrífa, búin að búa um rúmin þeirra og þar með vantar ekkert nema gestina! Þetta er önnur ferð þeirra hingað út til okkar, þau komu hingað fyrst í september 2005.
Það kom mér skemmtilega á óvart að Anna Sólrún tók ágætlega í það að láta af hendi rúmið sitt, svo lengi sem að hún fái það aftur þegar þau fara – sem er vandlega merkt á veggdagatalið. Á meðan ætlar Anna að sofa á svampdýnu inni hjá okkur og þar sefur hún nú. Við sjáum hvernig svefnrútínan fer á morgun þegar Hildur Sif hefur bæst í blönduna. 🙂
Það var líka ágætt að fá gott tilefni til að “þrífa” íbúðina, en yfirleitt látum við okkur nægja að “taka til” þegar það er orðið erfitt að fóta sig í íbúðinni og hætt að sjást í borðin. Það að “þrífa” felur í sér að draga fram vistvænu hreinsiefnin (mér finnst gott að geta andað í miðri hreingerningu) og skrúbbsvampa svo ekki sé minnst á ryksuguna. “Þrif” gerast sjaldan á þessu heimili, enda trúum við fyllilega á “hreinlætis-kenninguna“, en samkvæmt henni er fólki meiri hætta á ofnæmi og exemi ef það er of hreint í kringum það. Þannig eigum við engar “anti-bacterial” handsápur og notum afskaplega mild hreinsiefni, ef þau eru notuð yfir höfuð.
Hér eru líka stunduð “atburða-tengd þrif” (event-based-cleaning) en ekki til dæmis vikuleg þrif. Ég held að þessi stefna hafi hjálpað heilmikið á síðasta ári, enda fer ógurleg orka í að þrífa, og bara að hugsa um þrif yfir höfuð! Ég þakka reyndar Finni fyrir þessa merkilegu andlegu stillingu, því að þegar við hófum sambúð þá var minn skítaþröskuldur (hversu óhreint er áður en það verður að taka til/þrífa) talsvert lægri en Finns.
Nú er svo komið að minn þröskuldur hefur færst heilmikið upp á við, og ég var til dæmis mjög stolt af mér að fara ekki úr límingunni þegar ekki hafðist (vegna almenns áhugaleysis) að gera almennilega “jólahreingerningu” um síðustu jól. Mig minnir að baðherbergið hafi verið þrifið, og að við höfum náð að ryksuga, en þess fyrir utan fékk meiriparturinn af draslinu að eiga sig – og ég átti miklu ánægjulegri og afslappaðari jól fyrir vikið! 🙂
En sum sé, það er búið að strjúka af eldhúsinu og baðherberginu og ryksuga það vel í Önnu herbergi að það bergmálar þar inni (eigum ennþá eftir að hengja upp myndir…). Reyndar verð ég að segja að eftir að við fórum að nota “vistvæn” sjampó og sápur þá hefur sápu-skánin í baðinu snarminnkað og nú er ekkert mál að þrífa baðið. Hvað ætli sé eiginlega í venjulegum sjampóum/sápum sem veldur því að baðið næstum kalkast að innan?! Hmmm…
Jæja, best að botna blaðrið í bili og njóta friðsældarinnar áður en fjörið skellur á! 🙂