Miðvikudagur 26. apríl 2006
Fyrsti miðvikudagur í fríi
Í dag var fyrsti frí-miðvikudagurinn okkar Önnu Sólrúnar. Hún er nefnilega bara fjóra daga í viku á leikskólanum og það vildi svo til að miðvikudagurinn endaði sem frídagurinn. Við keyrðum því Finn í vinnunna svo við hefðum bílinn, og fórum því næst í læknisheimsókn til að athuga ástandið á eyrunum hennar Önnu. Hún var ekki orðin alveg góð rétt fyrir Hawaii ferðina, en við ákváðum að láta sýklalyfin eiga sig (læknirinn gat ekki sagt hvort þetta væri að batna eða versna) og keyptum í staðinn “decongestant” og “eyrnaolíu” með hvítlauk og kammómillu (og einhverju fleira).
Núna er barnið sem sagt orðið háð eyrnaolíu, og biður um hana áður en hún fer að sofa en í morgun bað hún um hana þegar hún vaknaði, svo ég vildi láta athuga hvort eitthvað væri á seyði. Í ljós kom að hún er með vökva í báðum eyrum, en enga sýkingu svo það er gott. Við ætlum að mæta aftur eftir mánuð til að láta athuga ástandið á ný, og ef hún er ennþá með vökva í eyrunum, þá gæti hún þurft að fara til háls-nef-og eyrnalæknis og mögulega fá rör. Sjáum hvað setur.
Eftir læknisferðina skruppum við í Whole Foods búðina (nýjasta áhugamál mömmu) og eftir að Anna Sólrún var búin að fá smá næringu var ég nógu hugrökk að fara með hana á klippistofu. Fyrir utan eina toppastyttingu, þá var Anna Sólrún síðast klippt í nóvember og það gekk svo svaðalega að ég ákvað að láta bara fagmanneskju um þetta núna.
Eftir að hafa tuggið það ofan í Önnu Sólrúnu að nú skyldi hárið klippt, þá mættum við á stofuna sem ég fer venjulega á sjálf, sem er eina stofan í nágrenninu sem ég hef fundið sem er með ágætar klippikonur og maður getur samt bara gengið þar inn. Allar hinar “fínni” stofurnar eru uppbókaðar, sérstaklega á laugardögum. Hvað um það, Anna Sólrún stóð sig eins og hetja, meiri að segja þegar flókarnir voru greiddir úr hárinu, sem veldur venjulegar miklum tárum heima við. Svo var hún klippt, og það tókst bara ágætlega! Toppurinn er kannski í styttra lagi, en hann vex. 🙂
Eftir öll þessi ævintýr keyrðum við heim, borðuðum og lögðum okkur báðar í tvo tíma, sem er auðvitað aðal-lúxusinn við að eiga heilan dag í frí. (Það er kannski þess vegna sem ég er ennþá á fótum, klukkan rúmlega miðnætti – ahemm!!) Eftir lúrinn og kaffi þá fórum við aðeins út að leika enda veðrið að jafna sig og bara afskaplega gott í dag. Það ætti ekkert að rigna fyrr en í næstu viku segja “þeir”. Svo náðum við í Finn í vinnuna og buðum síðan Augusto og Söruh í pistasíu-og-mangó-fylltan-lax a la Holla. Ég ennþá á fiski-þörf eftir allan fiskinn á Hawaii, nammi!! 🙂
Undir miðnættið notaði ég síðan tækifærið á meðan Finnur horfði á Battlastar Galactica (sem ég get helst bara horft á svona “til hliðar”) og setti fyrstu myndirnar á netið í næstum mánuð. Við eigum núna efni í rúmlega tíu síður, svo það er best að byrja að reyna að mjatla þessu inn!!