Sunnudagur 31. júlí 2005
Ljúft líf
Helgin er búin hjá okkur, en lifir víst aðeins lengur heima á klakanum. Þar mun vera verslunarmannahelgi, en við vorum aldrei góð að gera eins og allir hinir þá, þannig að við söknum hennar ekkert mikið. Það hefði samt verið gaman að vera í fríi á morgun!!
En í staðinn fyrir að vera útúrdrukkin einhvers staðar í tjaldi, þá tókum við helgina með stæl og fengum við Sigga, Yvonne og krakkana í heimsókn í gærdag og borðuðum saman ljúffengt nautakjöt a la Finnur – og í dag fórum við í heimsókn til Gumma og Eddu sem eru nýflutt á svæðið og búin að kaupa sér æææææðislegt hús með æææææææðislegum garði í Los Gatos. Þar búa þau með Ýr (7 ára) og Elísabetu (tæplega 21 mánaða) á meðan Gummi yfirmannast í Google, en ekki hvar?!! 🙂
Með í partýinu voru Sólveig & Arnar og Berglind & Styrmir ásamt sínum börnum, þeim Nikulási og Daníel. Það var gaman að sjá hvað krakkarnir léku sér vel saman, það þurfti ekkert hafa fyrir þeim, ekki einu sinni Nikulási sem er hálfu ári yngri en þríeykið Daníel, Anna og Elísabet, og ekki farinn að ganga ennþá. Merkilegt hvað þetta breytist hratt allt saman!! Það var líka gaman að sjá Önnu í hóp með íslenskum jafnöldrum sínum, því hún er í stærri kantinum á leikskólanum, en voða svipuð og Elísabet og Daníel. Gaman að sjá að íslensku tröllagenin standa fyrir sínu! 🙂
Það var sem sagt buslað í vatni, borðaður góður matur og spjallað saman langt fram á kvöld sem tilheyrir allt góðri verslunarmannahelgi! 🙂
Eftir að við komum heim hélt ég áfram brjálæði helgarinnar, sem var að halda áfram för minni í gegnum myndasafnið, og velja myndir til framköllunar. Þeir hjá kodakgallery.com (fyrrverandi ofoto.com) voru nefnilega svo sniðugir að gefa mér 40% afslátt sem rennur út á morgun eða hinn. Mín er því búin að vera að spana í gegnum safnið og tókst aldrei þessu vant að ná í skottið á sjálfri mér og á því von á nýjustu myndunum hérna til hliðar (50 mm síðan) í hendurnar síðar í vikunni. Fyrir þá sem eru forvitnir þá tók það mig 600 myndir að komast frá miðjum mars fram í lok júlí… 🙂
Næsta vika verður annars fróðleg. Leiðbeinandinn minn harkaði einhvern veginn út að fá samþykktar tilraunir þar sem send verða merki á milli “stóra disksins” á hæðinni og geimskips á braut um Mars. Þær byrja ca. á miðnætti og ná fram til hádegis alla þessa vikuna. Fyrsta keyrslan er í fyrramálið (byrjað seint) en svo á þetta að fara í fullan gír, aðfararnótt þriðjudags, miðvikudags, fimmtudags og föstudags… Mér finnst ég vera skuldbundin til að mæta upp í disk allar þessar nætur, og er búin að biðja um aukapláss á leikskólanum fyrir Önnu Sólrúnu, en það er alls ekki víst að ég fái það. Þá verð ég bara að koma snemma heim og reyna að halda rænu til hádegis!! Þetta verður sem sagt fróðlegt… 🙂