Fimmtudagur 11. september 2003
Myndagleði
Ég fékk smávægilegt áfall í gær þegar ég sá hvað við eigum eftir að setja ótrúlega margar myndir frá Íslandi á vefinn… en þá er bara að herða upp hugann og dempa sér í þetta… eða eitthvað… ahemm… 🙂 Til að bæta gráu ofan á svart, þá er Finnur kominn í sjálfskipað lyklaborðsbann eftir slæmt sinaskeiðabólgu-kast í dag, þannig að ég fæ að mjatla þetta allt sjálf! (vægt panikk) En ég get huggað mig við að hann var samt búinn að ná að laga til og minnka góðan slatta af myndum, svo þetta ætti að ganga nokkuð hratt…
Hin raunverulega myndagleði dagsins var hins vegar sú að við fengum sendar allar 2×91 myndirnar úr afmælinu hans Þórarins frá ofoto.com – og mér til mikillar gleði þá líta þær alveg merkilega vel út. Ég er ekki frá því að þær séu barasta betri en myndirnar úr gömlu “analog” vélinni okkar ! 🙂 Reyndar borgar maður 23 kr/29 cent (reyndar á sértilboði – CostCo býður aðeins betri kjör, en ég vissi að Ofoto myndi ná að framkalla myndirnar nógu hratt til að Logi gæti tekið þær til Íslands á morgun) fyrir stykkið – en á móti kemur að þær eru allar lausar við rauð augu og þvíumlíkt! 🙂
Ef maður væri bara svona duglegur að framkalla allar hinar góðu myndirnar…