Mánudagur 26. ágúst 2002
Flutningar á flutninga ofan
Þetta var nú meiri helgin! Á föstudaginn hjálpuðum við Logi og Fayaz henni Söru að flytja í nýja íbúð á kampus. Hún var búin að pakka öllu niður þannig að það gekk vel – þetta voru tvær bílferðir á bílnum hans Fayaz og við hin gengum á milli. Síðan kom Deirdre og við tókum til í gömlu íbúðinni því maður þarf að þrífa svo vel þegar maður flytur. Um kvöldið vorum við örmagna og hrundum í rúmið.
Daginn eftir var komið að því að flytja Kerri og John, en þau voru að flytja saman í eina íbúð á kampus. Það hafði hins vegar bara komið í ljós daginn áður að þau ættu að flytja (einhver stelpa var að flytja inn í íbúðina hennar Kerriar svo hún ákvað að flytja þá og þegar) svo hún var ekki búin að pakka neinu. Fyrir algjöra tilviljun þá var John hins vegar búinn að pakka, þannig að ég og Finnur fórum einhverjar sjö bílferðir með drasl fyrir þau… það má eiginlega segja að við höfum flutt þau! 🙂 Á meðan stóð Kerri í ströngu við að pakka og John að ganga frá með systur sinni og mömmu sem voru í heimsókn.
Síðar um daginn kíktum til við Gísla og Bobby sem eru að flytja til Kanada (Waterloo) í dag, og um kvöldið fórum við til Guðrúnar og Snorra í Fremont að spila Settlers með þeim. Svo reyndum við að ná í Elsu og börn sem lentu um klukkan 23, en við vorum ekki með farsímanúmerin svo við fórum á mis, og þau keyrðu til Stanford með bílinn alveg yfir-yfirfullan af töskum!
Sunnudaginn eyddum við síðan í heimsókn hjá Elsu þar sem Guðrún og Jónína kíktu líka við. Kvöldið endaði með grillveislu þar sem fleiri Íslendingar mættu! Algjör social-sprengju-helgi! 🙂