Föstudagur 15. febrúar 2002
Hellisbúinn x3
Hver man ekki eftir “Hellisbúanum” sem tröllreið landanum fyrir einhverju síðan í formi Bjarna Hauks? Í upprunalegri útgáfu heitir leikritið “Defending the Caveman” og við fórum að sjá það í kvöld með Matt og Deirdre. Að venju höfðum við rétt eytt nógu miklu í miðana til að fá að sitja upp í rjáfri (hver man ekki eftir U2 tónleikunum?) en það var svo sem í lagi þar sem þetta er einleikur og ekki mikið að gerast hvort eð er!
Í stuttu máli sagt þá fannst okkur Finni nú Bjarni Haukur bara standa sig betur en höfundurinn (Rob Becker) sjálfur, kannski vegna þess einfaldlega að íslenskan er mun mergjaðara mál heldur en enskan – en því verður ekki neitað að við hlógum allan tímann á meðan leikritinu stóð – jafnvel þó við værum að sjá það í þriðja skiptið!
Það vakti einnig athygli hversu lítill munur var á efninu sjálfu – þetta var nokkurn veginn það sama og við höfðum áður séð, nema að mig minnir að Bjarni Haukur hafi ekki minnst neitt á hornabolta en á móti kom að Rob Becker minntist ekki á að bjór væri 500 orða virði þó svo að hann segði frá þessu með 2000 orðin og 7000 orðin…