Föstudagur 17. september 2004
Ævintýri í svefnlandi
Aðfararnótt miðvikudags tók Anna litla upp á því að vakna á tveggja tíma fresti til að fá að drekka og fá snuð (svona eins og hún var búin að venjast á meðan hún var stífluð af hori) – og skildi móður sína eftir gjörsamlega búna á því daginn eftir. Á miðvikudagskvöldið kom svo að því að svæfa ungann (í okkar rúmi að venju) og það tók klst að fá hana til að loka augunum og sofna. Þar sem hún er orðin mjög kræfur skríðari ákvað ég að setja hana í rúmið sitt – enda hátt fall niður úr hjónarúminu – og við það vaknaði hún að sjálfsögðu.
Þar sem hún sprellaði í rúminu sínu ákvað ég að þetta gengi ekki og sussaði á hana og fór svo niður. Fimm mínútum og háværum mótmælum seinna fór ég aftur upp og sussaði hana niður, en Anna neitaði enn að fara að sofa og því fór ég niður aftur, núna í 10 mínútur og Anna mótmælti á meðan. Næst þegar ég fór upp lognaðist hún loksins út af – og merkilegt nokk án nokkurra ekkasoga sem ég held að þýði að hún hafi ekki haft mikið meint af, enda voru öskrin meira svona hávær mótmæli en andlegar kvalir… 🙂
Um nóttina vakti hún svo frá 3-4 (og fékk ekkert að drekka milli 12 og 6) en ekki fékk hún að fara úr rúminu sínu. Kvöldið eftir gekk aðeins betur að svæfa hana, þurfti bara einn mótmælaskammt, en á móti kom að hún rumskaði klukkan 2, 3, 4 og 5 þar til hún svaf loksins til 7. Allan þennan tíma hefur hún ekki sofið í okkar rúmi (að undanskildum 2 tímum fyrsta morguninn) og nú er bara að vona að nóttin verði skárri en fyrri nætur…
Í kvöld fórum við annars á pöbb í miðbæ Palo Alto og hittum hóp af Íslendingum og borðuðum (skv. matseðlinum) íslenskan fisk í “fish and chips”. Á morgun ætlum við að bjóða í Íslendinga potluck/BBQ og á sunnudaginn eigum við von á fólki í mat. Busy, busy, busy…