Föstudagur 15. október 2004
Vikulok
Þessi vika flaug hjá eins og svo margar aðrar vikur. Anna lagaðist hægt og rólega af magakveisunni, hún fór á leikskólann á þriðjudaginn en ég held að það hafi verið fyrst í dag sem hún var í raun búin að jafna sig. Var ég annars búin að minnast á það að hún er komin með átta tennur?! Sú áttunda kom reyndar fyrir örugglega mánuði síðan – ég er greinilega vonlaus móðir!! 😉
Hún er annars orðin mjög duglega að standa, stendur sjálf upp og helst uppi í margar margar sekúndur áður en hún beygir sig í hnjánum og sest sjálf niður. En sem betur fer er hún ekki farin að ganga. Hins vegar byrjaði einn strákurinn á leikskólanum að ganga um daginn og mér er tjáð að þar með byrja þau öll að ganga!
Ekki barna-fréttir
Af öðrum vígstöðum er það að frétta að ég náði aðeins að vinna í vikunni – er að reyna að skrifa grein til að birta í einhverju rannsóknarritinu. Ég er hins vegar plöguð af sjálfs-gagnrýni og er endalaust að fara aftur á byrjunarreit til að athuga hvort eitthvað sé ekki alveg eins og það á að vera. Svo þarf ég endalaust að fikta við myndir í Matlabbinu o.s.frv. o.s.frv.
Þess fyrir utan á ég rosalega erfitt að halda huganum við efnið, því það eina sem virðist komast að þessa dagana eru forsetakosningarnar… Ég horfði á allar “kappræðurnar” (sem voru í raun bara Q&A; í beinni útsendingu) svona útundan mér á milli þess að ég gaf Önnu og svæfði hana, því hún sofnar nú á milli 6-7 á kvöldin. Mér fannst Bush standa sig hörmulega í öll þrjú skiptin, aðallega því ég er ósammála honum um nokkurn veginn allt! Kerry hins vegar stóð sig framar vonum, var miklu meira “lifandi” en ég hafði þorað að vona. En eftir þessar þéttpökkuðu “issues” umræður þá er allt fallið í sama farið og allir í fréttunum farnir að tala um að Kerry hefði ekki átt að minnast á að dóttir Cheneys sé lesbía. Falli mér allar feigar flær úr flösu!! Hvað er að þessu “fréttafólki”?!?!
Út af tómum pirringi út í BBC og CNN sem hreinlega uppfæra síðurnar sínar alveg hroðalega lítið, er ég búin að finna nýtt “safe haven” á netinu sem heitir DailyKos. Þar hanga demókratar og tjá sig um heiminn og hvernig skal vinna forsetakosningarnar ásamt því að fylgjast með því sem er að gerast í heiminum. T.d. var mikið talað um Jon Stewart á Crossfire í dag.
Fyrir þá sem sitja heima á Íslandi þá er Jon Stewart eini maðurinn með viti í sjónvarpinu hérna úti. Hann og félagar hans halda úti hálftímalöngum “The Daily Show with Jon Stewart” sem er sýndur á klukkan 23 á mán.-fim. Þar þykist hann vera fréttamaður en í raun er að gera grín að fréttum dagsins, bæði vitleysunni sem kemur frá pólítíkusunum og líka frá “fréttastöðvunum”, þ.e. Fox, CNN og MSNBC. Ég mæli með því að þeir sem sætta sig við að vera með real player (hrollur) á tölvunni hjá sér nái sér í nokkrar klippur af síðunni þeirra – og svo má stundum líka nálgast þá í gegnum bit-torrent. Hey, og fyrst ég er að spreða linkum – endilega kíkið á bugmenot.com. Þar má finna notendanafn og lykilorð fyrir flest dagblöð og annað slíkt á netinu.