Sunnudagur 14. nóvember 2004
Komin heim
Eftir að hafa tjekkað okkur út af hótelinu um hádegisbilið skruppum við í REI “flagship” búðina sem var rétt hjá okkur. Þar fundum við loksins ágætis föðurlönd á Önnu fyrir Íslandsferðina. Síðan lá leið okkar í dýragarðinn þar sem við eyddum öllu eftirmiðdeginu. Þar var margt skemmtilegt að sjá eins og gíraffar, fílar, górillur, leðurblökur og margt margt fleira en því miður var veðrið frekar í kaldari kantinum svo flest dýrin voru bara inni við og vildu ekki leika sér mikið…
Eftir dýragarðinn enduðum við svo á nokkuð fínum veitingastað við Lake Union sem er inni í miðri borg og fengum okkur góðan mat á meðan Anna Sólrún steinsvaf í kerrunni sinni við hliðina á borðinu okkar. Að lokum keyrðum við á flugvöllinn, skiluðum af okkur bílaleigubilnum (þvílíkur lúxus!) og tjekkuðum okkur inn.
Það munaði heilmiklu að hafa Finn líka í flugvélinni, Anna gat breitt aðeins meira úr sér – en mestu munaði líklega að hafa seríós!! 🙂 Hún maulaði á því í örugglega hálftíma! 🙂 🙂 Annars var hún bara nokkuð góð en við hlökkum nú samt ekkert sérstaklega með að fljúga með hana til Íslands, en erum þó orðin aðeins sjóaðari núna.
Hún Sarah kom á okkar bíl og náði í okkur á flugvöllinn í San Jose, en þegar við ætluðum að leggja af stað heim þá neitaði bíllinn að fara í gang! Hann þóttist vera eitthvað rafmagnslaus og þegar við reyndum að starta honum þá opnaðist skottið!?!?! Sem betur fer gátu vegaverðirnir kallað á startara-gæja sem kom bílnum okkar í gang og hann lifði af alla leiðina heim þó svo að eitthvað væru stefnuljósin að ganga af göflunum… ahemm!! En við komumst öll heim heil á höldnu og það er fyrir öllu.. 🙂