Þriðjudagur 16. nóvember 2004
Leikskólapest #3
Hann pabbi hringdi í dag með þær gleðifréttir að hann og Anthony litlasti bróðir ætla að hitta okkur á Íslandi um áramótin!! 🙂 Þeir feðgar fljúga til Íslands þann 28. desember og aftur til Englands þann 2. janúar sem er algjör snilld, enda miklu styttra fyrir þá að fljúga til Íslands en til Ameríkunnar… 🙂 Svo er nú heldur ekkert slor að vera á Íslandi um áramótin! 🙂
En pabbi var ekki fyrr búinn að leggja á en Anna vaknaði af morgunblundinum sínum og þegar ég var að fara að skipta á henni ældi hún yfir okkur báðar… 🙁 Ég hélt nú að þetta væri bara eitthvað tilfallandi, en eftir stutt bað ældi hún aftur og þar með var þetta ekkert tilfallandi lengur. Ég hringdi því í dagheimilið og jújú, þar voru fleiri börn veik með gubbupest. Hér var því komin leikskólapest #3, einnig þekkt sem “hin mánaðarlega pest”.
Anna Sólrún hélt sem sagt ekki niðri mat í allan dag og við eyddum því bara deginum uppi í rúmi þar sem hún lúrði og kúgaðist á víxl og kláraði allan taubleiu-staflann fyrir rest. Upp úr kvöldmatarleytinu fór hún samt aðeins að braggast og verður örugglega orðin fín á morgun. Finnur kom sem betur fer snemma heim og þvoði allan þvottinn, eldaði og vaskaði upp – hjúkket! 🙂
Jæja, best að fara að sinna litla skinninu…