Fimmtudagur 2. desember 2004
Illa farið með lítinn grís
Þetta var nú meiri dagurinn! Ekki nóg með að ég færi með Önnu Sólrúnu litlu í flensubólusetningu númer tvö (sú fyrri var fyrir um 6 vikum síðan) heldur náði ég í hana extra snemma (rúmlega 5) á leikskólann til að fara með hana í jólapartýið hjá STARLab (labbinu mínu í skólanum). Því miður hafði hún ekkert náð að sofa eftir hádegi svo hún var algjörlega örmagna þegar ég náði í hana og hún sofnaði fljótlega eftir að við komum heim. Þá voru góð ráð dýr því ég vissi að hún yrði að ná að sofa eitthvað – svo ég endaði á því að pakka henni inni í þykka útigallann sem hún fékk frá Ásdísi Sólrúnu ömmu í sængurgjöf og keyra hana í kerrunni niður í skóla. Þannig náði hún að sofa smá án þess að við mættum óheyrilega seint.
Þegar við loksins mættum hafði heillingur af fólki safnast saman (enda vel veitt aldrei þessu vant) og það voru þvílík læti í öllum að tala þannig að Anna vaknaði samstundis. Við fórum beint inn á skrifstofu og ég setti Önnu í jólakjólinn sinn (mont, mont) og svo fórum við og “mingluðum”. Anna var svona frekar stjörf og ringluð af öllu fólkinu og hálfgerð mannafæla – sem breyttist í hreina hræðslu þegar jólasveinninn mætti skyndilega! Hún var sko ekki hrifin af honum svo við bökkuðum aðeins út úr mannfjöldanum og komum okkur fyrir svona fyrir aftan alla.
Skömmu síðar kom Finnur – og eftir því sem leið á partýið og fækkaði í hópnum þá varð Anna kokhraustari og undir lokin var hún nú bara komin í gott skap. En jólasveininn tók hún aldrei í sátt… Kannski er bara ágætt að við missum af jólaballi Íslendingafélagsins eftir allt saman… 🙂