Þriðjudagur 18. janúar 2005
Skökk vika
Það var frídagur í USA í gær, dagur Marteins Lúthers Kins Jr., og lokað á leikskólanum hennar Önnu Sólrúnar. Ég var því bara með hana heima allan daginn, sem hefði verið fínt ef við hefðum verið í góðu skapi, en satt best að segja var þetta eiginlega svona grumpy-keppni á milli okkar. Ég held að skapvonskan hafi komið til af því að Anna litla vaknaði of snemma greyið (ég er ekkert að halda að henni brjóstinu eins og oft áður og við vorum ekki nógu snögg að ná í mjólk) og var bara þreytt allan daginn – og ég með.
Þetta lagaðist fyrst aðeins eftir seinni lúrinn en þá fórum við í góðan göngutúr og enduðum svo í heimsókn hjá Daníel Andra sem var rosa gaman. 🙂
Í dag gerðist ekki mikið, við vöknuðum, við lúlluðum, við fórum í búðina, Anna fór á leikskólann, ég vann, eldaði, náði í hana, hún sofnaði, við fengum gesti, Finnur spilaði á meðan ég gerði myndavefsíður og svo horfðum við á Jon Stewart. Punktur-basta. Fyrir utan það að frídagurinn í gær setti allt úr skorðum í kollinum á mér og nú er ég einum degi á eftir.