Laugardagur 22. janúar 2005
Veisludagur
Þetta er heldur betur búinn að vera dagur mannfagnaða! Fljótlega upp úr hádegi fengum við Augusto, Söruh, bróður Söruh og dóttur hans í heimsókn, en okkur þótti tilvalið að hitta þau því Alice dóttir Adams er næstum jafngömul og Anna Sólrún, og svo er alltaf gaman að kynnast fólki sem maður hefur þar til bara séð á myndum.
Eftir að þau fóru, þá lá leið okkar í stórafmæli Daníels Andra, en hann verður eins árs á morgun. Það var margt um manninn og fullt af börnum í veislunni, og veitingarnar voru stórfenglegar eins og Berglindi einni er lagið. 🙂 Eftir afmælið þá fórum við heim í smá stund og Anna Sólrún lagði sig í kerrunni sinni, og síðan var haldið beint í næsta matarboð! Það var haldið heima hjá Deirdre og Matt, en Kamakshi og Ana sáu um matargerðina, sem var þar með blanda af spænskri og inverskri matargerðarlyst. Það mætti fullt af fólki og sem betur fer var Anna Sólrún skapspök eftir lúrinn svo hún skemmti sér og öðrum ágætlega. 🙂
Anna matar sig sjálf
Smá innskot áður en ég gleymi því. Í þessari viku hefur Anna verið að æfa sig að borða með skeið sem hefur gengið alveg merkilega vel. Hún náði að skófla upp í sig sjálf bróðurpartinum af perumauki um daginn en stundum á hún það til að ruglast aðeins og stinga skeiðinni í matinn og nota svo lausu hendina til að taka matinn af skeiðinni og reyna að stinga honum upp í sig. En hún er ekki algjör engill því svo á hún það líka til að byrja að berja skeiðinni í borðið, og þá fer allt út um allt…