Miðvikudagur 26. janúar 2005
Þrjóskari en ég veit ekki hvað…
Það er orðið erfitt að svæfa hana Önnu Sólrúnu. Í fyrsta lagi er ég búin að leggja svefnvopn #1 á hilluna, en það var brjóstagjöfin. Í staðinn er kominn stútbolli sem Önnu finnst gaman að naga hálfmjúkan stútinn á, enda í sífelldum tanntökum. Hún róast nú eitthvað við að drekka mjólkina samt, en yfirleitt ekki nóg til að sofna í fanginu á manni.
Eftir mjólkina leggjumst við niður í rúmið og það er alveg ótrúlegt að fylgjast með öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur til að sofna ekki. Trikk #1 er að hrista hausinn. Trikk #2 er að veifa höndunum og/eða snúa þeim á alla kanta og/eða lemja þeim í dýnuna/koddann. Trikk #3 er að heimta að setjast upp/skipta um stellingu og sjá þá eitthvað rosalega merkilegt á náttborðinu og vilja fara þangað. Trikk #4 (og mjög vinsælt) er að rífa út úr sér snuðið þegar hún er alveg að sofna og grýta því eins langt í burtu og hægt er, segja svo “dudda datt” og vilja ná í það. Trikk #5 er að pota í andlitið á mér eða toga í hárið mitt. Trikk #6 er að sparka af sér sænginni og veifa löppunum … og þannig má lengi telja.
Það er skemmst frá því að segja að það getur núna tekið klst eða meira að svæfa hana á morgnana og þær eru gjörsamlega búnar að gefast upp á að reyna að svæfa Önnu Sólrúnu á leikskólanum – nema ef hún sofnar þegar þær fara með krakkana í göngutúr í vagni. Jafnvel ef ég set hana í rúmið sitt og skil hana eftir þá kemur smá mótmælavæl og síðan bara stendur hún eða situr hljóðlát og bíður eftir að ég kíki á sig. Ég hef líka séð hana liggja og blikka augunum eins og hún væri alveg að sofna, en svo rífur hún sig upp…
Nætursvefninn gengur svona lala. Hún vaknar yfirleitt á 4ra tíma fresti og svolgrar í sig vatn. Í nótt fór þó svo að hún vakti frá 2 til 4 enda ég alltaf að bíða eftir að hún sofnaði svo ég gæti farið á klóið. Hún þrjóskaðist við svo á endanum vakti ég Finn og lét hann taka við og fór á klóið. Að sjálfsögðu sofnaði hún á honum (já, “á” honum, sem er ennþá mjög svo vinsæl sofnustelling) á nokkrum mínútum… sem þýðir fyrir greyið Finn að héðan í frá verður hann alltaf vakinn þegar hún vaknar… 😉