Laugardagur 29. janúar 2005
Af svefni sem öðru
Alveg síðan á miðvikudaginn hefur Finnur tekið að sér næturvaktina og ég fengið að sofa á mínu grunlausa græna eyra. Það hefur vægast sagt verið ljúft fyrir mig, og minna ljúft fyrir Finn – en hann skuldar mér ca. ár af næturvöktum svo ég hef litla samúð. Svo myndum við líklega bæði fá góðan nætursvefn ef við bara færum fyrr að sofa á kvöldin…
Af svæfingarmálum er það að frétta að þar sem Anna Sólrún sefur ekki í leikskólanum á daginn, þá tekur ca. 3 sekúndur að svæfa hana á kvöldin, enda hún gjörsamlega örmagna. Á móti kemur að morgun-svæfingin getur teygst vel úr hófi fram, en mér er svo sem sama – alltaf kósí að liggja uppi í rúmi. Ég er nefnilega búin að ákveða að mér verði ekkert úr verki á morgnana og þá er rúmið bara ágætis viðverustaður… 🙂
Nú er hádegi hérna og Anna Sólrún situr við hliðina á mér og hámar í sig svínahakks-pastarétt sem var í kvöldmat í gærkvöldi. Hún er orðin alveg kostulega subbuleg! 🙂 Í dag er svo meiningin að hitta Guðrúnu og Snorra og á morgun er 5 ára afmælisveisla Ölmu Hildar í Dublin (sem er borg 45 mín austur af okkur). Og já, það er blessuð blíðan út. 🙂