Fimmtudagur 11. febrúar 2005
Days go by…
Anna Sólrún er núna öll að verða hraustari, hún borðar betur, sefur betur og við bíðum bara í rólegheitunum eftir næstu flensu. Vikan hefur flogið hjá. Ég er búin að vera að potast við að vinna, en geng á hvern vegginn á fætur öðrum og í örvæntingu minni fór ég að leita mér að vinnu í Evrópu. Það gekk ekki neitt neitt. Best að snúa sér aftur að matlabb bara…
Fór í dag á smá “kvennafyrirlestur” þar sem gesturinn/fyrirlestarinn var yfirkona hjá Google. Hún byrjaði að vinna hjá þeim fyrir 6 árum og var sautjándi starfsmaðurinn og núna stjórnar hún “user interface-inu” hjá þeim. Og hún er líklega bara svona þremur árum eldri en ég. Hún var samt voða upplífgandi og allt það og það var upplífgandi að sjá hvað það mættu margar konur á fyrirlesturinn og að þær spurðu spurninga sem ég var líka að velta fyrir mér. Kannski að maður sé ekki einn í heiminum eftir allt saman?
Samt horfir maður á svona konur og veltir fyrir sér hvort maður gæti gert eitthvað svipað, hvernig maður fari að því að “meika það” í alvöru heiminum. Ekki endilega “meika það” fjárhagslega, heldur vinna í vinnu sem er spennandi og krefjandi og hentar manni og maður getur þroskast í og lært hluti og gerir samt ekki kröfu til þess að maður hitti aldrei fjölskyldu sína eða missi vitið. Hvernig byrjar maður? Hvernig veit maður hvert maður á að fara? Hjá hverjum að vinna? Hvað maður geti/kunni/komist upp með?
Það er í raun svoldið svindl að vera í doktorsnámi. Það er gert ráð fyrir því að maður stjórni sér sjálfur, sé sjálfur að stunda sínar “rannsóknir” og eftir að maður sé búinn að væflast um skólann í nógu langan tíma þá sé líklega hægt að útskrifa mann, svona eins og fólk er útskrifað af geðveikrarhælum ef það sýnir nógu góða hegðun. Á meðan er fólk í alvöru vinnum að gera alvöru hluti í alvöru heimi.
En það er ekki ég. Ég lifi í hálfgerðum draumaheimi, fær að dútla mér við að setja upp módel af annarri plánetu og velta fyrir mér hvað gerist ef rafsegulbylgjur eru sendar frá geimfari rétt yfir sjóndeildarhringnum, þær lenda á yfirborði plánetunnar og beinast svo til jarðar. Ég gæti allt eins verið að prjóna nema hvað að það myndi gagnast einhverjum. 🙂
Sum sé, ég er komin í þunglyndis-tilvistarkreppu doktorsnemandans. Það hlýtur að þýða að nú styttist í annan endann á þessu því eftir gleðina að uppgötva að maður geti gert það sem maður vill, kemur þunglyndið og kvíðinn yfir því að þurfa í raun og veru að gera það – og finnast maður ekkert komast áfram. Þá er lítið að gera nema skríða í rúmið og vona að næsti dagur verði betri, að andinn komi yfir mann og allt gangi upp. Stundum gerist það. Krosslegg fingur og fer að tannbursta mig.