Sunnudagur 13. febrúar 2005
Grillmatur og naflaskoðun
Við Hrefna buðum nágrönnum okkar í grillmat í gær; stelpu í vélaverkfræði í Stanford og kallinum hennar og tveggja ára gutta (Justin). Boðið var upp á þykkar nautasteikur með sveppasósu og ís og púrtvín í eftirmat. Mjög vel heppnað. Önnu Sólrúnu var hins vegar skellt í rúmið þegar hún tók að þreytast en hún ætlaði aldrei að sofna þar sem hún heyrði alltaf í Justin leika sér niðri… Ekki sátt við sín örlög. Svo hefndi hún sín á okkur í nótt þegar hún vaknaði um miðja nótt og fór að kasta snuddunni ítrekað fram úr rúminu og heimta að við færum að leita að henni og færa henni svo hún gæti endurtekið leikinn. Hún vaknaði þó í sólskinsskapi í morgun og trallaði í rúminu við hliðina á okkur á milli þess sem við reyndum að stela lúrum meðan hún las [mynda]bækurnar sínar. Svo sat hún í rúminu, lyfi upp bolnum sínum, potaði í naflann sinn og hló stuttlega. Henni fannst jafn fyndið að pota í naflann á foreldrum sínum en svo kom að því að hún rak allt í einu augun í lítinn fæðingarblett á maganum á pabba sínum og þá strauk hún hendinni létt yfir hann eins og til að þurrka hann af og sagði “ðöh!” sem er hljóðið sem hún fann upp fyrir “oj”. 🙂