Mánudagur 14. febrúar 2005
Mér finnst rigningin góð
Það er búið að rigna í allan dag og á víst eftir að rigna næstu vikuna. Það eru góðar fréttir fyrir mig því þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að vökva plönturnar – en slæmar fréttir fyrir Önnu Sólrúnu því krakkarnir fara ekki út á leikskólanum ef það er rigning. Þau eru flest of ung til að ganga og því eru þau bara höfð inni. Í mesta lagi eru þau sett í kerrur og farið með þau í göngutúr ef það styttir upp nógu lengi.
Lífið rennur annars bara áfram. Helgin kom og fór með verslunarferðum (föt og leisermús) og í dag var víst dagur Valentínusar. Tilvistarkreppan sem hrjáði mig í síðustu viku er að mestu horfin en ég held samt að ég ætti að fara að taka lýsi eins og hann Finnur því ég er ekki alveg sátt við skapið eftir að ég hætti með Önnu Sólrúnu á brjósti. Það er eins og ég hafi skyndilega siglt úr andlegu vari og út á rúmsjó, enda líkaminn víst hættur að fá sitt skapstillilyf nokkrum sinnum á sólarhring og í staðinn farinn að undirbúa sig undir næstu hugsanlegu óléttu (sem er sko ekkert á næsta leyti, ó-boj).
Annars er ég núna komin með mikla samúð og skilning á konum sem eignast börn með litlu millibili því þetta hormónasveiflustand er alveg einstaklega pirrandi og óþægilegt að vita aldrei hvaða manneskja maður verður þann daginn. Svo ekki sé minnst á hinn líkamlega pirring af því að fara í raun og veru (sorry karl-lesendur) á túr. 🙁
En ég held í vonina að þetta séu bara byrjunarerfiðleikar, svona eins og þegar gömlum bíl er startað á köldum og rökum vetrarmorgni. Væntanlega verður kerfið komið í ganghæft ástand eftir ekki svo langan tíma, og þá verða allir kátir – þar á meðal ég! 🙂