Þriðjudagur 3. maí 2005
Loksins, loksins
Þegar ég kom heim af “kvenfélagsfundinum” kom í ljós að ein augntönnin hennar Önnu var loksins búin að pota sér niður – sem skýrir lystarleysi og pirring í dag og í gær. Annars var “fundurinn” nokkuð sem okkar kvenfélag skipulagði með efnafræðinkonunum, þar sem fjórir ungprófessorar í Stanford sögðu frá sínu akademíska lífi í stuttu máli fyrir um 150 áheyrendur (ég sá um að panta matinn – sem dugði ótrúlegt en satt þótt aðeins hafi verið keyptur matur fyrir um 80 manns!!)
Hvað hefur annars verið að gerast? Ja, ég er búin að vera að hringsnúast í mínu dóti, hef verið að göslast í því í viku að besta einn hlut, en það eru alltaf að koma í ljós fleiri hlutir sem ég þarf að taka til greina, svo mér finnst ég ekkert hafa komist áfram, bara gengið í hringi. Á móti kemur að ég er búin að fá Finn í lið með mér að forrita í C++ (sem þýðir að hann segir mér hvað ég á að vélrita sem og ég geri) en mig langar að endurskrifa stöff sem ég skrifaði í matlab, sem tekur þar 4 klukkustundir að keyra, og ég er bara ekki nógu þolinmóð í svoleiðis!!
Þannig að þetta hafa bara verið vinnu og félagsskaps-dagar, jú og reyndar svo kom einn tiltektardagur á laugardaginn – sem byrjaði með því að mér blöskraði alveg hárfrumskógurinn á löppunum á mér svo ég rakaði þær í vaskinum – sem þá þurfti að þvo og áður en ég vissi var ég búin að þrífa allt baðherbergið og meiri að segja gólfið á því líka! Tiltektin náði nú ekki mikið út fyrir baðherbergið fyrir utan að íbúðin var ryksuguð, sem við hefðum næstum getað sleppt því það kemur svo mikið drasl inn á gólfið að utan.
Það var annars skondið að á sunnudaginn kom Finnur heim með Önnu eftir smá heimsókn hjá Daníel og greyið Anna var svo glorsoltin að hún fór og tók sér tvö græn jarðarber úr garðinum okkar og hámaði þau í sig, og varð alveg fokvond þegar ég kom í veg fyrir að hún æti stilkinn á seinna berinu! Nú er sem sagt ekki nóg að passa berin fyrir sniglunum og fuglunum heldur þarf að passa þau fyrir Önnu líka!!
Og já, hún segir líka “ssssh” þegar hún á að fara að sofa (og setur puttan fyrir munninn og allt). Ekkert smá sætt… 🙂