Föstudagur 13. maí 2005
Morgunstund gefur gull í mund…
Nú er svo komið að Anna Sólrún er orðin miklu orkumeiri á morgana. Það var alltaf þannig að hún rétt vaknaði til að fá sér morgunmat og kúka í bleiu og síðan var hún komin í bólið aftur í síðasta lagi tveimur tímum eftir að hún vaknaði. Núna er sagan önnur. Hún fer í fyrsta lagi í bólið þremur tímum eftir að hún vaknar, og getur tórað lúlla-laus í 6-7 tíma. Því hefur morgunrútínan breyst og við erum yfirleitt farnar að fara út að leika upp úr níu! Best að þreyta hana eins og hægt er, segi ég nú bara! 🙂
Ég er hins vegar óendanlega þakklát fyrir að hafa svona fínana leikvöll í bakgarðinum, og fullt af litlum leikvöllum alveg í nágrenninu. Það sparar manni líka að kaupa fullt af dóti, því hver húsahringur á sameiginlegt dót, eins og stóra plastbíla, o.s.frv. Svo er litli “prívat”garðurinn okkar líka góður, hún getur rölt inn og út án þess að maður þurfi að hafa áhyggjur af því að hún komist neitt lengra… 🙂
Vinnulega er lítið að frétta, leiðbeinandinn minn er að hverfa í mánaðarlangt frí í næstu viku svo ég þarf nú líklega aðeins að vinna um helgina. Sjáum hvernig það fer!