Sunnudagur 22. maí 2005
Komin úr útilegu
Útilegan var algjör snilld, við mættum á tjaldstæðið á hádegi og þá voru allir á leiðinni í göngutúr. Við hentum því dótinu úr bílnum, fengum okkur að borða og eltum hina. Þegar í Pinnacles þjóðgarðinn var komið gekk treglega að finna bílastæði, og á endanum lögðum við svo gott við innganginn og tókum rútu sem bar okkur hálfa leið að slóðanum sem við ætluðum að ganga.
Gönguleiðin var vel greiðfær og ég gekk með Önnu Sólrúnu í bakpoka alla leið upp að Balconies hellunum sem við fórum svo í gegnum, og aftur á leiðinni til baka! Hellarnir voru þröngir sums staðar, en með góðri hjálp tókst okkur að troðast þar í gegn. Anna stóð sig eins og hetja svo lengi sem hún var á bakinu á mér, en henni leist ekkert á það þegar henni var halað niður einn vegginn á bakaleiðinni… Finnur hélt svo á henni á leiðinni til baka.
Þegar á tjaldstæðið var komið höfðu fleiri góðir gestir bæst í hópinn og við borðuðum öll saman kvöldmat. Síðan tók að rökkva og þá fór ég með Önnu inn í tjaldið (sem var reist á meðan maturinn varð til) að sofa. Henni fannst tjaldið, og líka vasaljósið sem hékk efst í því, alveg rosalega spennandi, en undir rest sofnaði hún. Úti við var undarlega bjart því tunglið var fullt, og ég er ekki frá því að það sé á það stefnandi að miða við að hafa fullt tungl í næstu tjaldferð líka! 🙂
Morguninn eftir borðuðum við sameiginlegan kvöldmat, pökkuðum öllum saman og fórum svo í sund! Aldrei þessu vant var nefnilega sundlaug á tjaldstæðinu og þangað héldum við, enda vel rykug. Hún reyndist hins vegar vera ííííísköld svo við sátum nú bara og busluðum löppunum í henni, á milli þess að fólk stökk í laugina til að kæla sig, og hljóp síðan fljótlega upp úr henni aftur!
Eftir baðið settum við Önnu í bílstólinn og þar sem ég var að gefa henni jógúrt þá bara sofnaði hún! Við keyrðum því stuttan hring inn í garðinn aftur til að kíkja á “visitor center” svæðið, tókum nokkrar myndir og keyrðum svo í bæinn. Við Anna lúlluðum alveg að Gilroy þar sem við stoppuðum og hittum Guðrúnu og Co. á Appelbee’s veitingastaðnum! Síðan tók ég við stýrinu og við vorum komin heim um fjögurleitið, og fórum beint í ganga frá og þvo!
Núna er Star Wars – Episode 2 í sjónvarpinu sem Finnur er að horfa á og ég að hlusta á. Spurning með að kíkja á þessar 250 myndir sem við tókum í útilegunni!! 🙂