Miðvikudagur 25. maí 2005
Vargar
Þessir síðustu dagar í bekknum hennar Önnu Sólrúnar ætla að verða henni erfiðir, því tvær af bekkjarsystrum hennar eru farnar að ráðast á hana! Ein beit hana í forhandlegginn á föstudaginn yfir barnakerru, og í dag beit önnur hana rétt fyrir neðan marblettinn af gamla bitinu! Yfir hverju veit ekki, en núna heyrist bara “óh,ó…” þegar þær koma nálægt henni. Við prísum okkur bara sæl yfir því að það eru bara tveir dagar eftir í bekknum og þá fer hún í nýja bekkinn, en það gæti verið skammgóður vermir því þar skellur börnunum líka saman yfir dótinu.
Leikskólakennararnir í stóra bekknum eru reyndar ótrúlega góðir með að stoppa börnin af og fara í gegnum “ertu búin að spyrja hvort hann/hún sé búin með dótið?” rútínuna og leysa málið þannig, en stundum eru þeir bara aðeins of langt í burtu, sérstaklega þegar þau eru að hlaupa út í garði. Ég býst því við ennþá fleiri marblettum, en vonandi ekki fleiri bitum. Það er annars alveg ótrúlegt hvað tannförin eru skýr á skinninu, ekki fræðilegur möguleiki að mistaka þetta fyrir annað en bit!
Annars líkar Önnu alveg svakalega vel í nýja bekknum, þar er miklu meira af plássi og dóti og kennararnir eru á fullu allan tímann að hafa ofan af fyrir krökkunum. Eini gallinn á gjöf Njarðar er að þegar hún mætir klukkan 1 þá eru krakkarnir að fara að leggja sig, svo hún má ekki lengur sofa fyrir hádegi hérna heima. Svo vakna þau milli 3 og 4, og leika sér til 6 þannig að maður er í raun ekki að borga fyrir mikið “prógram”. En mér líkar vel við að vinna eftir hádegi, og morgnarnir eru yfirleitt skemmtilegir líka svo ég vona að þetta gangi upp og allir verði ánægðir – og að öll dýrin í skóginum verði vinir!