Þriðjudagur 14. júní 2005
Samviskan
Fyrsta útskrift Önnu Sólrúnar var í gær. Allir foreldrarnir hrúguðist inn í litla herbergið og horfðu tárvotir á “slædsjóv” af litlu dúllunum. Síðan voru afhentar gjafir til kennaranna sem svo fluttu ljóð og afhentu því næst útskrifarskírteinin. Síðan fórum við út í garð og borðuðum kvöldmat. Anna Sólrún var í ágætu skapi, lék sér í gamla garðinum sínum og við tókum tonn af myndum. Þetta var góður endir á degi sem var annars frekar ónýtur, því ég var svo ónýt eftir helgina að ég svaf frá eitt til rúmlega þrjú, skar niður melónur fyrir útskriftina og fór siðan í co-oppið.
Þess fyrir utan var fyrsti alvöru heiti dagurinn í gær, en dýrðin á ekki að endast lengi (sem betur fer) því það á að rigna á föstudaginn!!
Í dag var annars slappur dagur sem endaði með því að ég festist yfir samvisku-kitlandi Nova þætti og gaf Rauða krossinum smá pening. Ætlaði að gefa meiri pening, en týndist þá í góðgerðar-samtaka-frumskóginum og gafst upp. Það hjálpaði ekki að sum samtök sem maður hafði heyrt um voru ekki að fá neina sérstaka einkunn fyrir hagkvæmni í rekstri, önnur voru að ota sínum trúarlega tota og enn önnur voru komin með fyrrverandi Bush stjórnarmeðli, þannig að hvað gerir maður þá?!
Sjokk dagsins var þegar Anna Sólrún spyrnti sér svo fast í borðið að eldhússtóllinn sem hún sat í kollsteyptist og hún með. Sem betur fer tók plast-sætið sem er fast við stólinn af henni mesta höfuðhöggið og eftir að hún róaðist þá létum við hana ganga um og hún virtist sem betur ekkert vera rugluð í ríminu. Ég lét hana á endanum setjast aftur í stólinn sinn og hún var nú ekki alveg á því, en róaðist fljótlega eftir að hún fékk hrísgrjón að smjatta á. Hún borðaði eins og hestur og fór síðan að sofa, en ég kveikti á hlustunartækinu bara svona til að vera viss…