Þriðjudagur 28. júní 2005
Karma
Það hefur gengið treglega að fá íslenskan fisk undanfarið, en í síðustu viku fékk ég að vita að einn kassi af ýsu hefði skotið upp kollinum fyrir mig. Þar sem þetta eru 20 kg af ýsu þá fékk ég nokkra aðra í púkkið með mér og í gær fór ég svo og sótti fiskinn. Þar sem ég var að setja hann í frystinn hjá mér komst ég að því að 5 kg kassinn (af fjórum) var bara hálffullur af fiski, einhver hafði opnað kassann og fengið sér í soðið og meira en það!
Ég hringdi því í fisksölukonuna sem sagði mér að hún gæti tekið við fisknum í heild sinni (og þá ætti ég engan fisk því það er ekki sporð að fá) eða þá að ég gæti fengið smá þorsk-kassa síðar. Ég þáði framtíðar þorsk-kassann, en varð að bíta í það súra epli að ná ekki inni fyrir kostnaði, amk akkúrat núna.
Á móti kemur hins vegar að um daginn fann ég $24 í einni þvottavélinni í þvottahúsinu okkar – sem bætir næstum tapið – þannig að kannski var þetta bara karma?!
Annars er Anna Sólrún nú orðin opinberlega “eins og hálfs árs” gömul. Hún verður “fullorðinslegri” með hverjum deginum, setur teppi ofan á dúkkurnar sínar og sussar á þær, málar með pensli án þess að borða hann (étur hins vegar ennþá vaxliti og tússliti), kann að mestu að nota gaffal og skeið, vaknar örsjaldan á næturna og réttir okkur bók eftir bók til að lesa fyrir hana. 🙂