Miðvikudagur 13. júlí 2005
Alvöru uppköst
Eftir að vera bannfærð frá leikskólanum síðastliðna tvo daga, þá tók Anna Sólrún upp á því að vera alvöru veik núna í morgun. Morgunmaturinn kom að mestu upp úr henni á meðan hún sat við borðið, og svo eftir að Finnur var farinn, þá kom allt magainnihaldið upp úr henni á bringuna á mér þar sem við lágum í sófanum. Ég þakka sport-haldaranum fyrir að það fór ekki nema smá á sófann og gólfið! Við fórum því í bað og núna er hún sofandi og ég er að hugsa um að lúlla með henni líka, því hún vaknaði klukkan 6!
Í gær fórum við annars í sund, og ég var ekkert smá stolt af minni! 🙂 Hún var í kork-vestinu sínu, og gerði lítið annað en að skríða upp úr lauginni, stökkva svo út í hana (bókstaflega fleygði sér út í) í fangið á mér, snúa sér síðan við og synda (sparka) aftur að bakkanum. Ég fór svo með hana töluvert frá bakkanum, en hún synti bara og lét sér ekkert bregða þó svo að það færi vatn framan í hana. Nú verður spennandi að sjá hvað gerist í næstu sundferð, en hingað til hefur hún ekki viljað sparka mikið í vatninu… 🙂