Miðvikudagur 27. júlí 2005
Verslunar-þerapía
Við mæðgur fórum í verslunarferð í Stanford kringluna í gærmorgun ásamt Yvonne og hennar börnum. Lengst stöldruðum við í bókabúðinni, en ég keypti líka nýja sokka og skó á Önnu Sólrúnu, því fæturnir á henni lengdust skyndilega um daginn, og hún passar ekki lengur í suma skóna sína!
Helgin var fjörug að vanda, á laugardaginn fórum við í matarboð til Trudyar, sem vinnur með Finni. Þar hittum við Carlos, Mary og litla Max þeirra, ásamt Rick, sem einnig vinnur með Finni. (Carlos vann með Finni og er samlandi Rick. Svona tengist þetta allt einhvern veginn…). Anna skemmti sér ágætlega í garðinum með Max, en þau týndu upp nýdottin epli af eplatrénu og þau ýmist átu eplin eða notuðu þau sem bolta.
Á sunnudeginum lá leiðin til Fremont í sund, enda undarlega heitt undanfarið. Við gerðum lítið af viti fyrir utan það, og núna er komin ný vinnuvika og hún hálfnuð! Í dag og á morgun þarf ég að búa til “snakk” fyrir leikskólann (það er nokkuð ljóst að ég er ekki fæddur matarskipuleggjandi, ég var í búðinni í gær og tókst að klambra saman snakki fyrir daginn í dag, en gat ómögulega séð fyrir mér hvað ég ætti að færa þeim daginn eftir… Keypti því bara tonn af stöffi og vonandi reddast þetta! Oh, well!)
Vinnan skröltir áfram. Teiknaði hrúgu af bergmálum á Mars um daginn og sá einhver mynstur þar. Á mánudaginn fann ég og náði í jarðfræðilegt kort af Mars á netinu og eyddi deginum í að reyna að teikna kortið (náði sko í “undirliggjandi gögnin”) í Matlab, sem streittist á móti. En það hafðist undir lok. Mæli með “patchesm” fyrir marghyrninga-teiknun á kort!! 🙂
Núna er ég að slá á handarbakið á sjálfri mér (svona, nei, mátt ekki fá!!) því við getum fengið ferð með beinu flugi til Íslands, fyrstu vikuna í september fyrir 1150 dollara eða 75 þús krónur, fyrir okkur öll. Eins gaman og það væri að fara heim, þá ætlum við að reyna að eyða þremur vikum heima um jólin og fríið hans Finns er takmarkað… Svo er líka spurning nákvæmlega hversu mikið “frí” ein vika væri, ætli maður kæmi ekki þreyttari heim en þegar maður fór!! 🙂