Þriðjudagur 6. september 2005
Aftur á næturvakt
Það er orðið heillangt síðan ég bloggaði síðast, kannski af því að við vorum öll að halda í okkur andanum yfir honum Kjartani. En það versta virðist vera að baki (ég hef amk ekki heyrt annað, sjö-níu-þrettán) og því er kominn tími til að varpa öndinni örlítið léttar. Það kom sem sagt í ljós að fyrir réttum tveimur vikum síðan að Kjartan, næstelsta barn Soffíu og Ágústar, var með risastórt heilaæxli. Hann var búinn að vera með stíflaðar ennisholur (kvef) sem bara vildi ekki batna, og því fór hann á endanum til háls-, nef- og eyrnalæknis. Læknirinn kíkti upp í nef og sá glitta í eitthvað undarlegt og þá var Kjartani skellt í skanna sem sýndi að allt nefholið, frá nefinu að heilahimnunni var fullt af æxli, sem var í þokkabót búið að éta öll beinin þarna inni. Alveg hroðalegt alveg.
Hann eyddi næstu dögum í skoðun á Stanford spítala, þar sem læknarnir kortlögðu á honum hausinn. Það var ljóst að hann þyrfti tvær aðgerðir, eina til að loka fyrir blóðflæði til æxlisins og aðra til að fjarlægja sjálft æxlið, og þar sem þessar aðgerðir þurftu að gerast á tveimur samliggjandi dögum, og þeir voru rosauppteknir dagana eftir að þetta uppgötvaðist, þá var hann sendur heim og látinn dúsa þar í viku þar til hann fór í aðgerð núna síðasta fimmtudag. Foraðgerðin gekk vel, og aðalaðgerðin líka. Þeim tókst sem sagt að fjarlægja allt æxlið, sem var á stærð við stóra appelsínu, í gegnum 5 cm skurð frá augnabrún niður nefið.
Svo var hann sendur heim til sína á sunnudaginn (já, tveimur dögum eftir aðgerðina!!) með verkjapillur og við vonum bara að hann jafni sig fljótt og vel – og að þetta hafi verið góðkynja æxli, en það ætti að koma í ljós í lok vikunnar. Þeir voru þó vongóðir um að þetta væri góðkynja, svo við vonum það besta.
Af okkur hinum er mest lítið að frétta. Anna Sólrún orkubolti talar meira og meira og hefur mjög ákveðnar skoðanir á hlutum. Hún er orðin ágætlega lunkin með að muna og segja nöfn, sem vekur alltaf mikla lukku. Hún er líka búin að þjóta upp um skóstærðir, komin í 9 hérna sem er líklega 22 eða 24 heima…? Finnur er í vinninni að vanda, en fer í gymmið 3svar í viku og póker með strákunum einu sinni í viku. Ég er hins vegar aftur komin á næturvakt sem á eftir að endast út þessa viku. Sem stendur gengur betur en síðast (sjö-níu-þrettán) fyrir utan að núna erum við komin með einhverjar sendi-takmarkanir á okkur svo við getum ekki sent eins sterkt merki og við vildum og getum. Hrumpfh!
Svo fer að líða að því að Arnbjörg og Hallgrímur komi í heimsókn til okkar. Það verður gaman enda langt síðan við höfum séð þau! Það verður líka gaman að sjá hvernig Önnu Sólrúnu líst á Hildi Sif og öfugt! 🙂