Sunnudagur 11. september 2005
Enn önnur helgin “bítur rykið”
Þar með lýkur enn einni vikunni, sem leið allt of hratt eins og venjulega. Hrefna er ekki lengur á næturvöktum uppi á útvarpssjónauka þannig að hennar líf er að komast í fastar skorður aftur.
Við kíktum í gær til Snorra og Guðrúnar með nánast allt til Sushi-gerðar og eyddum deginum í “hópeflingu”; að dunda okkur við að búa til Sushi með kokteil og/eða sake í annarri hendinni og hina hendina kámuga af sticky rice. Réttirnir heppnuðust með ágætum, af færibandinu komu California rúllur (immitation crab, gúrka og avocado), túnfiskrúllur, grænmetisrúllur (gúrku, papriku, gulrætur) og rækjurúllur. Og allt var þetta étið um leið og það var tilbúið. Eyddum svo restina af kvöldinu í spilamennsku, eins og venjan er. 🙂
Í dag fékk Anna svo klippingu og öskraði eins og stunginn grís á meðan því fór fram, kærði sig alls ekki um það enda átti hún sér engrar undankomu auðið, var bundin í sætisbelti á matarstólnum og haldið í hana svo hún slasaði sig ekki á skærunum. Klippingin er eftir því líka, en samt framför. 🙂 Við buðum svo Augusto og Söruh í heimsókn að borða “varamatinn” með okkur (laxinn sem við keyptum til vara ef ekki yrði nóg Sushi á boðstólum). Laxinn heppnaðist vel, heilgrillaður lax fylltur með pistachio hnetum og mango chutney að hætti Hólmfríðar. Eftir mat var svo gripið í Pinocle spil (að sjálfsögðu). 🙂