Þriðjudagur 20. september 2005
Ein í hreiðrinu aftur
Adda, Halli og Hildur Sif flugu til Seattle í dag, svo núna við erum aftur ein heima í hreiðrinu. Þau verða í burtu í viku og koma svo aftur og verða hjá okkur í viku áður en þau fljúga heim til Íslands. Það er búið að vera rosalega gaman að hafa þau í heimsókn, en því verður ekki neitað að þetta er nú samt búið að vera frekar sjúskað hjá okkur.
Helsta sjúskið var heilsufarið, en Adda og Halli voru bæði að berjast við höfuðverki fyrstu dagana eftir að þau komu hingað. Halli var svo líka með bakverk eftir flugið. Hildur Sif bætti heldur um betur og var komin með amk 39.5 stiga hita á fimmtudagskvöldið eftir að þau komu. Við héldum að þetta væri bara tanntaka hjá henni (fjórir vígalegir jaxlar á leiðinni) en svo leið og beið og aldrei vildi hitinn fara almennilega. Þegar það fór svo gröftur að leka úr augunum á henni á laugardaginn hrindum við í Soffíu barnalækni, sem taldi nokkuð víst að greyið væri komin með í eyrun eftir að hafa farið kvefuð í langa flugferð. Hildur Sif fékk því lyf og gröfturinn var svo gott sem farinn um kvöldið, og hitinn daginn eftir.
Á laugardagskvöldið lagðist ég hins vegar í bælið með upp-og niðurgangspest, sem náði fram á nótt. Sunnudagurinn leið að mestu áfallalaus, á mánudeginum bættist við enn önnur svefnlítil nótt hjá mér því ég þurfti að keyra fólk á lestarstöina, og svo í nótt (aðfararnótt þriðjudags) fékk Anna Sólrún magapest og ældi fram á morgun. Kveðjustundin var því ekki mjög rómantísk, Öddu og Halla var ekki einu sinni fylgt til dyra því ég var lúrandi með Önnu Sólrúnu! Hún lifði á kóki fram á eftirmiðdag en þá fór hún að fá kex og brauð og var orðin alveg sprellfjörug um kvöldmatarleytið.
Við vonum vonum bara að þar með sé allt heilsubaslið búið og að þetta gangi betur næst!!
Dagskráin hefur annars verið eftirfarandi : Fimmtudagur – CostCo, In&Out; burger, Target, sofa; Föstudagur – Babies’R’Us, smá göngutúr á kampus; Laugardagur – Fínasta ferð til Napa, við fengum minivaninn þeirra Guðrúnu og Snorra lánaðan sem var algjör lúxus; Sunnudagur – Finnur hjálpaði nýnemanum Braga að koma sér fyrir og kaupa nauðsynjavörur, á meðan við hin fórum í Stanford Shopping Center; Mánudagur – Adda, Halli og Hildur Sif keyrðu suður til Santa Cruz og Monterey og heimsóttu sædýrasafnið á meðan við hin vorum í vinnu og leikskóla; Þriðjudagur – Flugferð til Seattle fyrr A,H&HS; en við mæðgur vorum heima við.
P.s. Í dag gekk á með þrumum og eldingum eftir hádegi og Anna Sólrún reyndi hvað hún gat að kíkja út til að sjá hvað var að valda þrumunum. Ég reyndi að sýna henni myndir af eldingum (við sáum blossa af og til) en sem stendur þá held ég að hún sé búin að sætta sig við að þrumur segi bara “brkrsbrksskrss”… 🙂 Ósköpunum fylgdi síðan fyrsta rigningin á svæðinu síðan í júní!