Laugardagur 24. september 2005
Me, myself and I
Ríkey frænka var að “klukka” mig, og nú á ég að segja 5 “tilgangslausa” hluti um mig. Hins vegar hafa klukk-listarnir sem ég hef séð hingað til (Hver byrjaði þetta eiginlega?!? Hvar eru þjóðfélagsrannsakendurnir?) ekkert verið sérstaklega tilgangslausir, heldur meiri naflaskoðun – þannig að kannski að ég skrifi tilgangslausan naflaskoðunarlista?
1) Heimilishald Ég bý með minni gullfallegu og yndislegu dóttur, og mínum stórmyndalega og yndislega eiginmanni, í litlu þéttpökkuðu tveggja hæða raðhúsi á kampus, hálfa leið á heimsenda, það er í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Ég hef undanfarin ár farið og keypt hillu í Ikea á hálfs-árs-fresti, og nú er svo komið að það er ekkert pláss eftir nema á stigapallinum og úti í garði. Þar er nú þegar komin ein hilla. Ég er löt að þrífa, en við reynum að halda íbúðinni sæmilega snyrtilegri.
2) Persónuleiki Þjáist af (síminnkandi) fullkomnunaráráttu, lifi fyrir að skipuleggja (flokka og raða), er með svakalegan sjálfsaga á sumum sviðum (lesa fyrir próf!) en alveg ferlega lítinn á öðrum (hreyfing!). Ráðskast með fólk hægri-vinstri, en reyni að vera vingjarnleg annars. Á auðvelt með að skipuleggja mannfagnaði, er “room coordinator” fyrir bekkinn hennar Önnu Sólrúnar.
3) Áhugamál Ljóóóósmyndir. Hef alltaf tekið mikið af myndum, en þegar við keyptum okkar fyrstu stafrænu vél opnuðust flóðgáttir. Panta reglulega 600 myndir eða svo úr framköllun og raaaða í möppur í tímaröööð. Set mikið af myndum á netið, vonandi einhverjum til ánægju fyrir utan bara mig.
4) Matur Les innihaldslýsingar á matvörum grimmt. Neita að kaupa vörur sem innihalda hormóna, sýklalyf, “partially hydrogenated” olíur og “high fructose corn syrup”. Það útilokar svo til öll kex, morgunkorn og fjöldaframleidd ofurbrauð. Splæsi á “organic” því við höfum efni á því.
5) Starf Vinn sem doktorsnemi í rafmagnsverkfræði við að lesa út úr yfirborðsbergmálum frá plánetunni Mars. Þetta er í beinu framhaldi af því að ég legó-aði bara með geimlegóið hans Arnars frænda þegar ég var yngri. 🙂
Í öðrum fréttum þá er Anna Sólrún ennþá rauðeygð eftir vírusinn, en virðist vera öll að koma til. Finnur ætlar samt að fórna sér og vera heima með henni í kvöld á meðan við Guðrún tökum stelpnakvöld upp í borg á rokktónleikum með Green Day. 🙂
Svo klukka ég Óla (eða Hollu), Öddu (eða Halla, þegar Depill lifnar við), Guðrúnu, Elsu og Stínu Stuð.