Mánudagur 26. september 2005
Ennþá fastar heima
Anna Sólrún er ennþá veik! Fyrripartinn í gær leit út fyrir að hún væri bara að verða fín, var kát og glöð að vanda, en um 3 leytið varð hún aumingjaleg aftur og eftir síðdegislúrinn var hún komin með 39.7 stiga hita (veiktist á fimmtudag). Þar með var okkur öllum lokið og ég gafst upp og leysti út pensillín-skammtinn sem læknarnir höfðu verið svo vænir að skrifa upp á á föstudaginn. Þá kom nefnilega í ljós að annað eyrað var rautt, en hljóðhimnan hreyfðist samt, svo þeim fannst ekki rétt að gefa henni lyf strax. Ég fór því heim með þær leiðbeiningar að ef henni myndi versna þá mætti ég gefa henni þessi lyf.
Það fór því svo að hún er kominn á sinn fyrsta pensillín skammt á ævinni, og það er sko enginn smá skammtur!! Við eigum að gefa henni fulla stóra sprautu (rúma 10 mL) tvisvar á dag, en sem betur fer finnst henni bleika sullið gott svo það gengur vel niður, amk hingað til.
Það verður spennandi að sjá hvað gerist í kvöld og í nótt því undanfarnar nætur þá hefur hún verið með 39 stiga hita og óvær. Við erum amk á því að þetta sé að verða gott! Því verður samt ekki neitað að við foreldrarnir vöknuðum bæði með særindi í hálsi í morgun og því ekki útséð með að pestabælið sé að verða pestalaust alveg í bráð!!
Í öðrum – og öllu skemmtilegri – fréttum, þá eignuðust Lotta og Úlfar sitt fyrsta barn núna um daginn og eru að sjálfsögðu búin að setja upp heimasíðu fyrir dúlluna hana Freyju. Hún er ekkert smá sæt! Og myndirnar flottar, enda Lotta “prófessjónal” ljósmyndari!
Tónleikarnir á laugardaginn voru líka bara snilld, við Guðrún stóðum svona 40-50 metra frá sviðinu og það voru endalaus “sing-a-long” og frábær lög og gaman gaman. 🙂 Ég tók nokkrar hrikalega fuzzy myndir á farsíminn minn og treð þeim kannski á netið þegar ég hef tíma.