Miðvikudagur 28. september 2005
Seattle-farar snúa aftur
Þau Adda, Halli og Hildur Sif komu aftur frá Seattle núna í dag eftir góða ferð þangað. Þar með er litla íbúðin okkar aftur orðin þéttpökkuð! 🙂 Tímasetningin hjá þeim var annars góð því Anna Sólrún er loksins orðin góð og fer á leikskólann á morgun. Kvöldið í kvöld er fyrsta kvöldið í næstum viku þar sem hún hefur ekkert vaknað upp vælandi eða með hita.
Þetta var nú annars frekar skrítið með hana því bæði sunnudag og mánudag var hún svotil hitalaus, fyrir utan að hún skaust upp í hita á kvöldin og næturna. Þannig mældist hún með 40 stiga hita á miðnætti á mánudag! Daginn eftir var hún svo hitalaus með öllu… Ég fór því með hana á þriðjudaginn í skoðun og þá kom í ljós að bæði eyrun litu “krömmí” út og þá var hún sett á sterkari sýklalyf. Það var líka tekin þvagprufa, en sem stendur hefur ekkert ræktast úr henni. Það er fræðilegur möguleiki að sýklalyfið sem hún byrjaði að fá á sunnudaginn hafi náð í skottið á mögulegri blöðrubólgu, en það er erfitt að vita.
Til að bæta gráu ofan á svart, þá erum við Finnur bæði búin að vera með hálsbólgu síðan um helgina, og ég fór í dag til að láta taka sýni úr hálsinum. Þar sem við mæðgur biðum eftir að hjúkkan kæmi að kíkja á mig, þá fór Anna að hósta upp slíminu sem hafði safnast saman yfir nóttina, og það fór ekki betur en svo að það pikkfestist í hálsinum á henni og hún ældi… Greyið litla!! Hún var því bara heima í dag líka. Finnur kom síðan snemma heim og fór með hana út að leika í 30 stiga hita og síðan komu gestirnir aftur.
Ástandið á þeim var svona upp og ofan. Halli hefur það fínt, en Adda er næstum raddlaus af hálsbólgu, og er öll stífluð í hausnum. Hildur Sif var svona örlítið aum, við vonum að það verði ekkert verra. Á morgun er planið að kíkja um á kampus, og fara síðan í verslunarferð í eina “outlet” kringluna. 🙂