Fimmutdagur 20. október 2005
Tekið að kólna
Já, í dag var skýjað meiripart dags, og samkvæmt hitaspánni bara 22 stiga hiti, í staðinn fyrir þessi venjulegu 27 stig. Það er víst að koma “vetur”… 🙂
Vikan hefur liðið á meðalhraða, ég kíki á annarra manna blogg og blóta þeim fyrir að skrifa ekki nýjar færslur, og fatta síðan að ég er ekkert skárri! Þetta er samt búin að vera sæmilega tíðindamikil vika. T.d. gerðist það á þriðjudagskvöldið að Anna Sólrún kúkaði sinn fyrsta kúk á koppnum og það á koppabrúnina! Sem betur fer er brúnin breið segi ég nú bara! 🙂
Rétt fyrir háttatímann elti hún mig sem sagt inn á klósett, og sat þar inni á koppnum mér til samlætis. Svo stóð hún skyndilega upp og gerði þarfir sínar á örskotsstundu, enda vön að gera þær standandi! Enginn sitju-kúkur á þessu heimili sko! Sem betur fer er koppurinn stór og mikill svo þetta fór ekkert of langt frá tilætluðum stað… En þá kemur spurningin – hvernig þrífur maður kopp eftir kúk?! Er vatn og klósettpappír nóg? Þarf maður að ná í spreybrúsann? Ég hef aldrei alveg skilið þann part…?!?!
Svo erum við mæðgur búnar að vera með svakalegt “kvalití-tæm” á morgnana, því Finnur var sendur á “stjórnenda-námskeið” upp í borg í gær og í dag, svo hann var farinn út úr húsi fyrir sjö. Þar á undan og í fyrramálið lá/liggur leiðin í gymmið svo þar er að finna meiri “kvalití-tæm”! 🙂 Þetta er nú búið að vera frekar rólegt hjá okkur, ég er búin að vera að snurfusa aðeins til, ryksugaði á þriðja morgni, en á fyrsta morgni henti ég til dæmis loksins öllum bolunum mínum og peysum sem voru komin með svona bletti í handarkrikana. Ég hugsaði sem svo að það myndi enginn vilja mína svitabletti gefins, svo þeir fóru beint í ruslafötuna. Kann annars einhver ráð við þeim?!
Í dag hélt ég svo fyrirlestur um það sem ég hef verið að bralla fyrir hópinn minn og hann fór ágætlega í menn og konur, líklega samt ekki nærri því eins ljúflega og allar veitingarnar sem eru alltaf á boðstólnum á þessum fundum. Endalausar bandarískar risa-smákökur, súkkulaði hitt og þetta, vínber og ostar. Nammi namm! 🙂 En sum sé, bara föstudagurinn eftir af þessari vinnuviku, og hann endar á saumaklúbbi hjá Berglindi. Naaammiii, namm! 🙂