Sunnudagur 23. október 2005
Engin krísa
Var alveg ótrúlega sátt við lífið í gær. Ég sat við stofuborðið hjá Guðrúnu og Snorra, eftir alveg eðal-máltíð (grillað kjöt, salat með frábærri dressingu, kartöflu- og jamgratín) og var alveg ferlega sátt eitthvað. Gallinn við þetta lífssætti er hins vegar að þá hefur maður litla orku í að breyta hlutunum, sem kemur kannski helst fram í því að ég er ekki alveg að mæta í vinnuna full af svona “nú rassskelli ég þetta vandamál” orku, heldur meira svona “æ, já, vinnan, hvað var það nú aftur sem ég var að gera”?
Ég get ekki gert upp við mig hvort stórkostlegar framfarir gerist bara í skugga ferlegrar óánægju, eða hvort það sé mögulegt að þær gerist þegar allt er voða jollí-jollí. En ég myndi svo sem sætta mig við einfaldar framfarir í vinnunni, þær þurfa ekkert að vera stórkostlegar, sérstaklega ef þær gerast undir “jollí-jollí” frekar en “urrrrgh!” því ég veit ekki hvort ég nenni að standa í miklu “uuurghi”. Lífið er of stutt! Hmmm…
Helgin leið á vanabundinn hátt, nema hvað að nú stefnir í að við séum að panta vikuferð til Hawaii með Guðrúnu og Snorra í apríl á næsta ári. Það stefnir í að það verði ferlega dýrt, en á móti kemur að við höfum ekki farið í fullorðins-frí (fullorðins-frí er frí þar sem maður borgar fyrir flug og hótel, og það er ekki í tengslum við Íslandsferð, ráðstefnur, námskeið eða aðra hluti sem aðrir borga að hluta) í mörg ár og höfum því ekki grænan gvend um hvað svona hlutir kosta lengur. En dýrt verður það, því Hawaii er dýr staður.
Í dag komu Kanada-Jói, Jóhanna og Jakob í kvöldmat og það tókst ekki betur til en svo að það kviknaði í grillinu okkar og einn takkinn hálfbráðnaði af!! Fiskurinn fór því bara inn í ofn og ætlaði ALDREI að verða tilbúinn! En góður var hann. 🙂 Þau eru annars að íhuga að flytja hingað frá Kanada, en það er erfið ákvörðun því vinirnir eru í Montreal, og hérna er allt skrilljón sinnum dýrara… Við sjáum hvað setur… 🙂
Síðan henti ég upp fullt af myndasíðum og er komin fram í október! Held áfram mínu “love-hate” sambandi við myndirnar. Finnst gaman að taka myndir, ekkert sérstaklega gaman að laga þær til, gaman að setja myndirnar saman í hálfgerða sögu, og hata hvað þetta tekur langan tíma allt saman! En það er óendanlega gaman þegar myndir heppnast vel… Er líklega samt búin að ákveða að mér er illa við flass. Vil frekar gular myndir af fólki en myndir með stórar hvítar skellur í andlitinu eftir flassið. Kannski að ég ætti samt að prófa að kaupa svona stand-flass áður en ég gefst alveg upp á ljósblossunum… 🙂