Laugardagur 12. nóvember 2005
Afmæli á Selfossi
Í dag fórum við í 4ra ára afmælið hans Ágústs Bjarka (Ágústar Bjarka?) í Dublin, sem er í 45 mín akstursfjarlægð héðan. Það er á við að keyra frá Reykjavík til Selfoss (eða er það ekki?) en einhvern veginn þá virkaði það alls ekki sem löng bílferð. Við erum greinilega orðin eitthvað af-íslenskuð…
Afmælið var annars mjög fínt, sjóræningjar út um allt og fullt af nammigóðum veitingum. Anna Sólrún var ekki lengi að hertaka einn dúkkuvagninn og endaði á því að svæfa allar dúkkur í augsýn… 🙂 Allir krakkarnir (og það var sko mikið af krökkum!) skemmtu sér vel og þeim kom rosalega vel saman. Kannski að það hjálpi að hafa svona mikið pláss og margar tegundir af dóti! 🙂
Eftir að við komum heim fór Anna beint í rúmið og svo sofnaði Finnur fljótlega á sófanum. Ég hins vegar glápti á sjónvarpið til miðnættis og er núna í tölvunni að kíkja hvort ég sé að missa af einhverju í heiminum. Fékk risastórt flassbakk þegar ég las um nýfædda dóttur froskanna, það er eitthvað svo langt síðan við gerðum lítið annað en að horfa á nýfædda Önnu Sólrúnu, en samt svo stutt. Awww…
Þess fyrir utan er ég að býsnast yfir mjóbakinu á mér, það fór alveg úr gír um daginn, er allt eitthvað vitlaust eins og einhverjir vöðvar séu bólgnir, og allt í einu er ég komin með vott af vöðvabólgu í axlirnar og hægra handarbakið er tæpt. Það gæti verið að nýju strigaskórnir séu eitthvað vitlausir fyrir mig, eða þá að það hafi farið svona illa með mig að vinna á fartölvunni hans Finns alla vikuna? Svo hjálpar undir-stressið heldur ekki. Svo er það eílíf ráðgáta hvers vegna ég get ekki bara farið að sofa á skikkanlegum tíma, sérstaklega þegar ég veit að ég kem til með að vakna klukkan 7 morguninn eftir? Held ég þurfi nýtt heilaprógramm…