Föstudagur 2. desember 2005
Síðast heildagur í heimsókn
Þeir feðgar fara á morgun eftir allt of stutta dvöl. Alveg svakalega þægilegt að hafa svona afa í heimsókn sem sér um Önnu Sólrúnu í hádeginu og fer svo með hana á leikskólann! Svo ekki sé minnst á að hafa afa sem nær í hana líka – og svo innbyggðan leikfélaga (Anthony) sem Anna Sólrún dýrkar og dáir. Hann er merkilega þolinmóður við hana þó stundum vilji hann nú bara fá smá frið.
Það var heiðskírt en “kalt” (15 stiga hiti) í dag, og við röltum út í Stanford kringluna. Þar stoppuðum við í barnaskóbúð þar sem eldri kynslóðin reyndi að túlka göngulag yngri kynslóðarinnar í hinum og þessum skóm. Úr varð að Anthony fékk nýja stigaskó og Anna Sólrún meðal-uppháa gore-tex Ecco skó fyrir vætuna það sem eftir lifir “vetrar” og Íslandsferðina.
Á leiðinni heim aftur hoppaði ég út úr strætó hjá vinnunni og afi Gunnar og Anthony sáu um að gefa Önnu Sólrúnu að borða og koma henni á leikskólann. Ég sat á meðan sveitt við að klára að raða myndum inn á plaggat fyrir næstu viku. Þegar það var búið þá tók við prentaravesen, en það er ekkert grín að prenta út plaggöt sem eru 90 cm á hæð og 140 á breidd þegar plaggata-prentmanneskjan kann ekkert á græjuna. Í lok dags átti ég því ennþá ekkert plaggat en varð að fara heim því Finnur var að elda dýrindis mat. Það var kannski allt í lagi, því rétt áður en ég fór heim þá fann ég stafsetningarvillu, svo kannski var bara betra að þetta gekk ekki betur.
Kannski að á nái að kreista plaggatinu út á morgun og geti þá farið að vinna að plaggati númer, ahemm, tvö – sem lýsir því sem ég var að gera í sumar áður en við fórum að stunda allar þessar tilraunasendingar með stóra disknum (sem plaggat númer eitt fjallar um). Svo hlaðast upp verkefnin og það lítur út fyrir að það verði önnur tilraunakeyrsla 11-16 desember. Við Finnur erum hins vegar að fara heim til Íslands þann 15. Íííks! 🙂