Sunnudagur 29. janúar 2006
Skrikkjótt líf
Trúi því ekki að janúar sé að verða búinn. Það bara er ekkert skemmtilegt því ég er ekki búin að gera neitt af viti í janúar. Bleh. Vildi vera búin að blogga meira, og núna er klukkan 2 um nótt og ég á að vera sofandi. Asnaðist til að þrjóskast við að klára einn kafla í bók sem ég keypti um helgina, Self-Made Man. Kaflinn var um strippklúbba og frekar depressívur og ekki til þess að svæfa mann. Mundi þar sem ég lá og reyndi að sofna að ég skuldaði manneskju tölvupóst og læddist hingað niður. Er ekki farin upp ennþá.
Random hlutir: Anna Sólrún er búin að pikka upp marga af frösunum mínum. Einn sá fyndnasti er “miiiiklu betra” þegar það er búið að laga eitthvað. Þetta er ekki eitthvað sem tveggja ára börn eiga að segja. Finnur er eitthvað klambúleraður þessa dagana, kvartar undar verkjum hér og þar og alls staðar og er afskaplega mis-orku mikill. Við erum búin að sækja um að Anna Sólrún fari 4 daga á viku á leikskólann allan daginn, því ég er að klebera á því að vera heima með hana 4 morgna í viku bíllaus. Það er búin að vera rigning undanfarið svo það eru fáir krakkar úti að leika á morgnana. Þá eru nefnilega öll tækin ennþá blaut eftir nóttina og morgunrakann. Agalegt alveg. Hér á enginn pollagalla nefnilega…
Annar vinsæll Önnu-frasi er “Kvaðeretta?” það er að segja “Hvað er þetta?”. Hún getur endurtekið “Kvaðeretta?” óendanlega oft, og líka “mamma… mamma… mamma…” sem stundum útleggst hjá henni “mommí… mommí… mommí…”. Þetta getur tekið á hráa nemandasál sem er stundum svefnlaus og vitlaus og villt.
Enduðum á því að sofa heima hjá Guðrúnu og Snorra eftir spilakvöld sem dróst úr hófi fram langt fram á nótt í gærikvöldi (%&”%” póker!) en það var gaman að vakna aftur (ó, klukkan 7 með lífrænu vekjaraklukkunni, henni Önnu Sólrúnu) og sleppa henni svo bara á leik með Baldri. Hef sjaldan fengið jafn góðan frið til að lesa tímarit. Þau eru voða sæt saman, skiptast oftast á með stóra hluti, kannski með smá kvarti, en það eru greinlega til “Anna turn” og “Baldur turn”. Svo hnoðast þau og elta hvort annað í milljón hringi í gegnum eldhúsið.
Hef ekki tekið mikið af myndum nýlega, en við keyptum okkur nýja vefmyndavél með góðum standi fyrir svona flatskjái eins og okkar. Vídeótökuvélin er nefnilega orðin fjólublá, svona eins og Finnur þegar hann horfir upp á öll glötuðum kódak-mómentin. Myndavélin er búin að vera í fríi að mestu, og fáar myndir því teknar. Lífið hefur verið tiltölulega atburðasnautt, og við hjónin letibuskur með svefnsýki, svo það er´i raun lítið af frétta. En það þýðir að ekki að básúnast yfir því, ef við værum ofvirk hjón sem færum saman út að hjóla um helgar, þá værum við ekki við… 🙂