Miðvikudagur 1. febrúar 2006
Corteo
Guðrún minntist á það fyrir ekki svo löngu að hana langaði að fara með Sif á Cirque du Soleil og spurði hvort ég vildi ekki koma með. Ég melti það með mér en svo fékk ég tölvupóst frá Sirkúsnum núna á mánudaginn (ég er sko á póstlistanum þeirra) um að það væri 20% afsláttur á nokkrar sýningar. Við skelltum okkur því bara, og sáum sýninguna í kvöld, Corteo. Mikið ævintýri þar! 🙂
Sýningin gekk út á að trúði væri að dreyma um jarðarförina sína sem var þvílíkt partý og gaman. Þess á milli sem að fólk spilaði tónlist og söng, þá voru akróbatar sem gerðu allt milli himins og jarðar, og voru helst í lausu lofti ef þeir gátu ráðið því… Mjög flott sýning og gaman að gera eitthvað öðruvísi.
Morguninn var reyndar líka öðruvísi. Ég ákvað að fara niður í skóla og fann þar fyrir Deirdre sem er að undirbúa vörnina sína. Hún var ekki vinnuglaðari en svo að við spjölluðum frá okkur morguninn, fyrst á skrifstofunni hennar og svo á göngutúr út í listasafnið á kampus. Þar kom reyndar babb í bátinn, því þar sem Anna Sólrún var að leika sér í garðinum fyrir utan, skrikaði henni fótur og rann niður litlar tröppur með andlitið á undan. Andlitið grófst síðan hálft í mölina (sem var sem betur fer ekki hvöss að íslenskum sið) og hún uppskar skrámur á kinninni. Það blæddi samt ekkert, sem var gott, en hún var voða aum.
Þetta er einmitt fullkomin tímasetning á einhverju svona, því að á föstudaginn fer ég með hana til nýs barnalæknis. Eftir þó nokkra umhugsun ætla ég segja skilið við Stanford spítalann í bili, maður þarf alltaf að bíða svo lengi hjá þeim og maður talar alltaf við læknanemana fyrst og svo alvöru læknana. Sum sé, busy mæður með heilsutryggingu vilja spítala sem heldur áætlun og ekki þarf að tvítaka allt! En sum sé, við eigum eftir að mæta og Anna á eftir að líta út eins og hún hafi verið lamin. Ó, boj! 🙂