Sunnudagur 26. febrúar 2006
Annasöm helgi
Vúh! Helgin búin og við búin að vera duglega aldrei þessu vant! 🙂 Á laugardaginn drifum við okkur snemma á fætur og keyrðum suður til Monterey svo Finnur gæti farið að kafa með Loga og Tassanee. Þegar á ströndina var komið var skýjað, en þegar leið á morguninn rofaði til. Á meðan Finnur & Co. fóru í maraþon 45 mínútna köfun, vorum við Anna á ströndinni að leika okkur.
Til að byrja með leist henni ekkert á sjóinn, vildi sem minnst með hann hafa. Ég brá þá á ráð að spyrja hvort hún vildi setja vatn í tvær litlar fötur, sem hún vildi, svo við stóðum lengi vel við sjávarmálið og biðum eftir að það kæmu nógu stórar öldur svo við gætum náð í vatn. Til að byrja með var Anna Sólrún í stígvélum og ég með berar bífurnar, en svo kom aðeins of stór alda sem fór upp fyrir stígvélin. Þar með var þeim vippt af, enda sólin farin að skína vel og vandlega og nóg að fara aðeins upp á ströndina til að hlýja fótunum eftir kaldan sjóinn. Anna Sólrún sem sagt varð sífellt brattari og undir lokin þurfti ég aðeins að halda aftur af henni, hún vildi ekkert sérstaklega hætta að busla!
Þegar kafararnir komu upp á land aftur, þá var Finni helst til kalt (reyndar barasta mjög kalt) svo hann ákvað að þetta væri orðið gott og við pökkuðum saman. Hádegismaturinn var hjá Jóni á Bistro 211 og á bakaleiðinni gerði ég örstutt Carter’s stopp í outlettinu í Gilroy. Þegar heim kom þá tókum við því svo bara rólega sem eftir lifði dags og kvölds.
Á sunnudagsmorgninum vakna ég upp við að Augusto og Sarah ætla í gönguferð upp á háu hæðunum fyrir ofan okkur (varla hægt að kalla þetta fjöll, alltof gróin til þess!) svo við mæðgur ákváðum að drífa okkur með. Þegar upp var komið, eftir um 20 mínútna ökuferð á 10 km hraða til að Anna Sólrún yrði ekki bílveik af öllum hlykkjunum, þá kom í ljós að það var fúllyndis-veður þarna uppi, hávaðarok og rigning. Anna Sólrún fór barasta að gráta þegar hún fór út úr bílnum og eftir 20 metra göngu komumst við að þeirri niðurstöðu að rigningin og rokið sem von var á frá Alaska hefðu komið aðeins fyrr en veðurfræðingarnir höfðu spáð – og snérum við!
Við keyrðum niður sömu leið og enduðum heima hjá okkur þar sem Finnur spilaði spil við Augusto & Söruh og Todd & Torie sem höfðu líka ætlað í göngutúrinn. Á meðan þau spiluðu stakk ég af og kíkti loksins á Freyju Katrínu þeirra Sólveigar og Arnars, svo ekki sé minnst á Atla Nikulás sem er núna orðinn stoltur stóri bróðir! 🙂 Freyja er alveg rosalega sæt, en ég hef líklega hitt beint á 3ja vikna vaxtarkippinn hjá henni, því hún var víst búin að vera óróleg undanfarna tvo daga, en það var ekki nokkur von að vekja hana á meðan ég var þarna! Hún bara svaf og svaf – svo lengi sem það var haldið á henni amk! 🙂
Um leið og ég renndi í hlaðið hjá okkur aftur þá mættu Guðrún og Snorri með sína krakka og afmælisköku handa Guðrúnu, sem á afmæli á morgun. Þau höfðu verið í húsgagna-hugleiðingum í nágrenninu og því stutt að kíkja til okkar. Eftir kaffið stakk ég af í búðarleiðangur í Stanford-kringluna (meðal annars til að kaupa afmælisgjöf handa Guðrúnu!!) á meðan drengirnir keyptu í matinn og Guðrún og Sif litu eftir Baldri og Önnu sem eru alveg kostuleg saman! 🙂
Eftir ágæta kvöldstund náðum við aðeins að hreinsa til í húsinu sem leit út eins og eftir sprengjuárás – og núna er markmiðið að koma svo sem einni myndavefsíðu á netið áður en ég gleymi hvernig á að gera það!! 🙂