Laugardagur 11. mars 2006
Ástand
Klukkan orðin margt og ég stareygð. Búin að vera strembin vika fyrir okkur öll. Álagið í vinnunni hans Finns er að aukast með nýjum forstjóra, við vonum samt að hann geti haldið áfram að vinna átta tíma vinnudag. Í mínum heimi er nett panikk, ég er búin að vera að reyna að fá einhverjar “niðurstöður” til að setja á plaggat sem ég kem til með að hengja upp í Houston, Texas á þriðjudaginn. Eini gallinn er að dótið sem ég er að vinna með er ekki samvinnuþýtt og ég þarf svo miklu meiri tíma en ég hef til að geta sagt eitthvað – það er ef ég get yfirhöfuð sagt eitthvað um eitthvað.
Það hjálpaði ekki neitt að ég var “hormónalega vanstillt” alla síðustu helgi og meiri part síðustu viku sem þýddi að ég var vonlausari en venjulega. Núna er það sem betur far að baki og hausinn kominn að mestu upp á hálsinn aftur og bakið sæmilega beint. Ekki það að “niðurstöðurnar” séu neitt meira að láta draga sig í dagsljósið en það verður að hafa það.
Annars kom babb í bátinn á fimmtudaginn, en þá kom í ljós að Anna Sólrún er aftur komin með í eyrun, mögulega varð hún aldrei alveg betri. Mitt neyðarástand varð til þess að Finnur var heima með hana á fimmtudeginum og ég vann á meðan. Á föstudagsmorgun ældi greyið og þar með var hún föst heima lengur. Í þetta sinn vann ég um morguninn en Finnur vann eftir hádegið. Í dag er ég síðan búin að vera í vinnunni en Finnur var með Önnu sem er ennþá frekar óstöðug í maganum og ældi aftur. Kannski að það sé lyfið hennar?
En ég sem sagt mætti í vinnuna á laugardegi í fyrsta sinn í heila eilfíð og uppgötvaði þar að bróðurpartur af samnemundum mínum voru líka mættir. Þar með fékk ég smá þunglyndiskast yfir því hvað ég er latur doktorsnemi. Vonandi næ ég nú samt einhvern tímann að útskrifast… Íííík!
Á meðan ég sit fyrir framan tölvuna og blóta í sand og ösku, hefur Finnur legið fyrir framan sjónvarpið, gjörsamlega límdur yfir “Battlestar Galactica” þáttunum. Ég sníkist til að kíkja af og til, en til að spara mér tíma er ég búin að lesa mér til um hvað gerist í þáttunum þannig að ég þarf ekki að eyða tilfinningaorku í þessa annars mjög svo heillandi þáttaseríu… 🙂